Til Baka
DEILDU
Snjöll vildarkerfi skapa einstakt samband við viðskiptavini

Snjöll vildarkerfi skapa einstakt samband við viðskiptavini

viðtal
March 19, 2025
Texti
Ritstjórn
Mynd
Samkaup
Getur smáforrit breytt því hvernig viðskiptavinir velja hvar þeir versla? Með öflugum vildarkerfum á snjallforriti geta fyrirtæki boðið sérsniðin tilboð, nýtt gögn til að spá fyrir um þarfir viðskiptavina og skapa þannig sterkari tengsl. Samkaup hafa verið í fararbroddi á þessu sviði og fara skapandi leiðir innan vildarkerfis síns til að tryggja hollustu viðskiptavina.

Hugi Halldórsson, viðskiptastjóri vildarkerfis Samkaupa þekkir árangur vildarkerfa af eigin raun en Samkaup hafa verið í fararbroddi á matvörumarkaðnum í þróun vildarkerfis. „Vildarkerfið er það stærsta sinnar tegundar á Íslandi, en vildarkerfi í matvöruverslun eru vel þekkt fyrirbæri erlendis. Við sóttum innblástur í kerfi danska fyrirtækisins Coop, en samstarfið hefur verið gagnkvæmt. Við höfum notið góðs af þekkingu Coop, en þau hafa einnig lært af okkur, sérstaklega hvað varðar nýtingu starfsfólks sem áhrifavalda til að kynna vörur og tilboð,“ segir hann.

Samkaup hafa byggt upp einstakt samband við viðskiptavini sína í formi vildarkerfis þar sem þeir geta nálgast kjör og safnað inneignum í gegnum app í síma sínum, en appið virkar eins í öllum verslunum Samkaupa, Nettó, Kjörbúð, Krambúð og netversluninni Netto.is.

Hafa safnað tveimur milljörðum

Í gegnum appið geta viðskiptavinir safnað inneign sem nota má við innkaup síðar. Inneignin verður til í hvert sinn sem vörur eru skannaðar við innkaup, en á hverjum degi eru líka ákveðnar vörur á sérkjörum, þar sem stór hluti kaupverðs myndar inneign í appinu.

„Frá því að appið var tekið í notkun hafa notendurnir safnað nærri tveimur milljörðum króna í inneign. Skráðir notendur eru orðnir nær 90.000 talsins og appið er notað um 170.000 sinnum í hverjum mánuði.

Rúmlega 20% af heildarveltunni hjá okkur fer í gegnum appið.

Sérstaklega hefur appið náð mikilli útbreiðslu í minni samfélögum á landsbyggðinni. Við sjáum til dæmis meiri virkni í Nettó á Egilsstöðum en í Nettó í Mjódd, sem sýnir líka að það eru sóknarfæri á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Hugi.

Meðalaldur notenda er um 38 ár en Hugi bendir á að eldri viðskiptavinir nýti einnig appið mikið, enda sé það einfalt í notkun. „Eldri kynslóðin er oftast mjög meðvituð um hvernig best sé að nýta afslætti til að spara og appið gefur þeim kost á því“ útskýrir hann.

Hugi Halldórsson, viðskiptastjóri vildarkerfis Samkaupa.

Hugi segir að markmiðið með þessu kerfi, eins og öllum vildarkerfum, sé að verðlauna trygga viðskiptavini og styrkja tengsl þeirra við verslunina. „Inneignin er ein leið til að gera það en í gegnum appið fá viðskiptavinir líka tilkynningar um sértilboð og missa því síður af þeim. Markmiðið er að efla tryggð viðskiptavina okkar og með því að veita inneign í hverjum innkaupum stuðlum við að því að þeir snúi aftur til okkar.“

Gagnadrifin sértilboð

En vildarkerfið gagnast líka Samkaupum og viðskiptavinunum á aðra vegu. Með því að þróa þetta vildarkerfi fáum við betri innsýn í þarfir og kauphegðun viðskiptavina, sem gerir fyrirtækinu kleift að bæta þjónustuna. Appið gerir okkur kleift að eiga beint samtal við notendur og við stefnum að því að sérsníða tilboð í takt við þarfir hvers og eins. Ef við vitum að viðskiptavinur á hund getum við boðið honum sértilboð á hundamat, en þeir sem ekki eiga hund fá ekki slíkar tilkynningar“ segir Hugi.

Verslananet Samkaupa er mun dreifðara um landið en hjá keppinautunum og í mörgum byggðarlögum er Kjörbúðin eina verslunin. Hugi segir að verslanarekstur við slíkar aðstæður skapi áskoranir sem hreinlega séu ekki til staðar í höfuðborginni eða öðrum stærri bæjum. „Flutningskostnaður og annar kostnaður er hærra hlutfall af veltu í þessum verslunum og það þarf stundum skapandi hugsun til að láta reksturinn ganga upp, því við viljum ekki velta öllu út í verðlag. Við höfum því verið að skoða leiðir til að nota appið til að bjóða heimafólki á þessum stöðum betri kjör en almennt gerist, að minnsta kosti á þessum helstu nauðsynjavörum. Þetta er spennandi verkefni og hefur fengið góðar viðtökur þar sem við höfum verið að prófa þetta, en við eigum enn eftir að þróa þetta áfram.“

Með þróun á appinu fær Samkaup betri innsýn í þarfir og kauphegðun viðskiptavina.

Samkaup eru líka farin að bjóða upp á leiki í appinu, þar sem notendur geta unnið vörur með því að taka þátt. Hugi segir að viðtökurnar hafi farið fram úr þeirra björtustu vonum. „Fyrstu leikirnir voru svo vinsælir að við þurftum að leita til birgja til að tryggja það að við hefðum örugglega verðlaun fyrir öll þau sem unnu. Þátttakan var miklu meiri en við höfðum gert ráð fyrir og hún hefur haldist mjög mikil í þeim leikjum sem komu í framhaldinu. Þetta er skemmtileg leið til að vekja athygli á vörum og vörumerkjum og ná þessari tengingu við viðskiptavininn sem við erum að sækjast eftir. Það er virkilega gaman að sjá hversu vel fólk er að taka í leikina“ segir Hugi að lokum.

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Anna Fríða til Nóa Siríus — tekur sæti í fram-kvæmdastjórn
ráðningar
October 3, 2024

Anna Fríða til Nóa Siríus — tekur sæti í fram-kvæmdastjórn

TEXTI
Ritstjórn
Dýrt að ná nýjum viðskiptavinum
viðtal
February 17, 2025

Dýrt að ná nýjum viðskiptavinum

TEXTI
Ritstjórn
Kjarni jarðar í nýrri ásýnd Aton
verkefni
February 5, 2025

Kjarni jarðar í nýrri ásýnd Aton

TEXTI
Ritstjórn