UM

OKKUR

HVAРER HERFERÐ?

HERFERÐ er nýr fréttamiðill á netinu sem er tileinkaður skapandi markaðsmálum og auglýsingaiðnaðinum á Íslandi.
HERFERÐ skapar tækifæri fyrir fagfólk í markaðsmálum til að koma sér á framfæri og skapa faglega umræðu um íslensk markaðsmál.
2/4
MARKMIÐIÐ er að styrkja ásýnd og umfjöllun um skapandi markaðs-og auglýsingamál á Íslandi og stuðla að því að markaðsfólk geti orðið enn áhrifameira afl í íslensku viðskiptalífi.
3/4
Stofum og sjálfstætt starfandi aðilum býðst að senda inn efni til umfjöllunar hjá Herferð. Ekki verður tekið greitt fyrir umfjallanir eða kynningar.
4/4

KONURNAR
Á BAKVIÐ HERFERÐ

Anna Margrét Gunnarsdóttir

Stofnandi / Ritstjóri
Anna Margrét Gunnarsdóttir er sérfræðingur í fyrirtækja- og markaðssamskiptum en hún lauk meistaraprófi í stefnumiðaðri markaðssetningu frá Handelshoyskolen BI í Osló árið 2017.

Fyrri störf Önnu Margrétar eru meðal annars hjá sænska tískurisanum H&M, þar sem hún leiddi opnun keðjunnar á Íslandi haustið 2017. Seinna meir færði Anna Margrét sig yfir til móðurfélagsins, H&M Group í Stokkhólmi og starfaði þar sem verkefnastjóri í samskiptadeild. Hjá H&M Group var Anna Margrét m.a. ábyrg fyrir öllum sjálfbærnisamskiptum móðurfélagsins, ásamt leiðtogasamskiptum þess (e. C-suit communications). Anna Margrét vann þannig um árabil með framkvæmdarstjórn H&M Group í Stokkhólmi og stýrði meðal annars stærstu samskiptaverkefni félagsins, þar á meðal ársskýrslu þess og sjálfbærniskýrslu en H&M Group er skráð félag í sænsku kauphöllinni og hefur um 150.000 starfsmenn um allan heim.

Anna Margrét hefur einnig ríkulega reynslu af fjölmiðlamálum og meðhöndlun þeirra, bæði sem blaðamaður hjá Birtíng sem og upplýsingafulltrúi H&M fyrir íslenska og norska markaðinn. Hún hefur því tekist á við fjöldann allan af flóknum krísumálum og á að baki litskrúðug samskiptaverkefni hjá alþjóðlegu fyrirtæki.

Árið 2023 lét Anna Margrét af störfum hjá H&M Group og stofnaði samskiptastofuna Altso. Styður hún þar íslensk stórfyrirtæki með stefnumótun samskiptamála ásamt því að veita ráðgjöf í sjálfbærnisamskiptum, markaðssetningu vinnustaða (e. employer branding) og þróun samskiptaefnis fyrir fagmiðla s.s. LinkedIn.

Erna Hreinsdóttir

Stofnandi / Ritstjóri
Erna Hreinsdóttir hefur lengi verið viðriðin hönnunar- og auglýsingaheiminn. Hún útskrifaðist með B.A. gráðu í grafískri hönnun frá University Of The Arts London árið 2006 og hefur síðan hlotið víðtæka reynslu í hönnun og miðlun bæði á Íslandi og á erlendri grundu.

Um árabil starfaði Erna við útgáfu á íslenskum tímaritum og tók síðar við sem ritstjóri tímaritsins Nýtt Líf. Á árum sínum í útgáfu kom Erna bæði að hönnun blaðanna og efnissköpun þeirra. Samhliða verkefnum sínum sem hönnuður og blaðamaður hefur Erna fengist við stíliseringar og listræna stjórnun á framleiddu efni fyrir ljósmyndaþætti, auglýsingar og kynningarefni fyrir tískumerki. Verk eftir Ernu hafa birst í tímaritum á borð við Elle, Marie Claire, Kaltblut svo fátt eitt sé nefnt. 

Undanfarin ár hefur Erna svo fengist við vefhönnun með megináherslu á netverslanir. Tvinnar hún þannig saman feril sinn og reynslu sem grafískur hönnuður og listrænn stjórnandi við hönnun og þróun stafrænnar ásýndar.

TAKTU ÞÁTT Í AРSKAPA HERFERÐ

Við viljum bjóða öllu skapandi fólki sem fæst við auglýsinga- og markaðsmál á Íslandi að taka þátt í mótun á efni á miðlinum. Herferð er vettvangur til að gefa röddum úr iðnaðinum á Íslandi tækifæri til að heyrast. Þátttaka fagaðila er mikilvægur þáttur í að halda miðli sem þessum á lofti. Einnig viljum við benda á að hægt er að beina auglýsendum inn á miðilinn í gegnum Púls Media. Ritstjórn er óháð í framleiðslu á eigin efni og í senn áskilur sér rétt til gæðaeftirlits á innsendu efni.