Til Baka
DEILDU
Glæný og litrík Þjóðhátíð

Glæný og litrík Þjóðhátíð

herferð
October 1, 2024
Texti
ENNEMM
Mynd
Einar Ingi Sigmundsson
Í tilefni af því að Þjóðhátíð í Vestmanneyjum fagnaði 150 ára afmæli var ráðist í algjöra endurmörkun á ásýnd hátíðarinnar.

Auglýsingastofan ENNEMM tók að sér verkið og er hönnuðurinn Einar Ingi Sigmundsson á bak við nýtt útlit Þjóðhátíðar sem frumsýnt var í sumar.

„Hönnunin er fersk og lífsglöð og sameinar allt það skemmtilegasta sem hátíðin stendur fyrir í litríkri mósaík sem virkar í öllum auglýsingamiðlum. Þar að auki falla merki styrktaraðila hátíðarinnar áreynslulaust inn í grafíkina. Þekktar hendingar úr vinsælustu Þjóðhátíðarlögunum voru svo notaðar sem slagorð til að tengja sem best saman nostalgíuna og ferskleikann sem gerir þessa hátíð svo einstaka.“

Ein af grunnstoðum í hönnun Einars Inga er mikill fjöldi íkona nokkuð sem er óvanalegt, enda felur það í sér mikla grafíska vinnu. Aðspurður um íkonin segir Einar að það hafi einfaldlega svo margt komið upp í hugann þegar hann hugsaði um Þjóhátíð:

„Hátíðin er þekkt fyrir svo mörg sögufræg atriði sem erfitt er að velja úr. Þannig kviknaði hugmyndin um að prófa að nýta þau bara öll!

Ég endaði svo á að hafa þetta í öllum regnbogans litum til að endurspegla fjölbreytta og fjölskylduvæna dagskrá og á sama tíma vera með litríkt „festival“ útlit.“

Hvernig var að þróa nýja og uppfærða ásýnd fyrir hátíð sem á sér svo langa sögu ? „Það skemmtilega við Þjóðhátíð er að hún er ekki eitthvað eitt, heldur mismunandi eftir fólki og aldri hvað það kýs að gera. Ég vildi láta hönnunina endurspegla það með ólíkum birtingarmyndum. Þannig var líka gaman að setja saman mismunandi auglýsingar fyrir mismunandi tilefni. Eins og þegar ákveðnir listamenn voru tilkynntir, fyrir Húkkaraballið og Tuborg tjaldið sem dæmi.“

Það er ákveðin áskorun að hafa þetta allt sem einfaldast en samtímis segja sem mest.

Hvernig var að fá styrktaraðila til að beygja sig undir listræna stjórnun og með því öðruvísi framsetningu á vörumerkinu þeirra? Pepsi, Tuborg, IceWear eru t.d öll með uppfærða litakóða hér - var það áskorun að fá þetta allt til að passa saman? „Það kom sér vel að vera með með stórt litróf í hönnuninni því þá var hægt að finna lit sem passaði hverjum aðila fyrir sig. Mér skilst að þau hafi öll verið ánægð með sinn hlut því hver fékk sinn karakter á efninu. Síðan skiptum við því líka upp þannig að hver og einn styrktaraðili var ekki endilega á öllu efni en var með stórt hlutverk í því efni sem þau voru á.“

Hvað var skemmtilegt og hvað var krefjandi í ferlinu? „Það var gaman að glíma við að hanna öll þessi merki og íkona og halda til haga sem flestum sjónarhornum á Þjóðhátíð. Það er ákveðin áskorun að hafa þetta allt sem einfaldast en samtímis segja sem mest. Það sem var krefjandi var að láta þetta smella sem heild, en eftir mikið af skissum og mismundi útfærslum, letrum og litum þá small þetta!“

SKOÐA

FLEIRI GREINAR