Til Baka
DEILDU
Góð markaðsmál auka samkeppnishæfni

Góð markaðsmál auka samkeppnishæfni

viðtal
February 17, 2025
Texti
Ritstjórn
Mynd
Aðsendar/Orkusalan
Heiða Halldórsdóttir starfar sem framkvæmdarstjóri sölu, þjónustu og markaðsmála hjá Orkusölunni. Áhuginn á markaðsmálum spratt upp úr neytendasálfræði en síðan þá hefur Heiða verið heilluð af faginu. 

Heiða hóf störf hjá Orkusölunni fyrir rúmum sex árum, fyrst sem markaðsstjóri en tók svo  við nýrri stöðu árið 2023 sem framkvæmdastjóri sölu, þjónustu og markaðsmála.

„Undir mínu sviði heyra einnig orkuskipti fyrirtækisins, sem er gríðarlega áhugavert og krefjandi verkefni“ segir Heiða en áður vann hún sem markaðsstjóri Jarðbaðanna við Mývatn í tæp þrjú ár og var einnig stjórnarformaður Mývatnsstofu. Þar á undan starfaði hún sem birtingaráðgjafi hjá Birtingahúsinu.


Mannleg hegðun í markaðsfræði

„Leiðin mín í markaðsfræði var ekki alveg beint línuleg. Ég byrjaði á því að læra sálfræði en mér hefur alltaf þótt fólk og hegðun þess mjög spennandi. Áhuginn á markaðsfræði kviknaði svo þegar ég tók áfanga í neytendasálfræði. Þar var farið inn á hvernig við tökum ákvarðanir sem neytendur, af hverju við hegðum okkur eins og við gerum og hvað mótar val okkar“ segir Heiða og lýsir því hvernig þessi skyndilegi markaðsáhugi varð til þess að hún ákvað að fara í meistaranám í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum.

Á meðan Heiða var að skrifa meistararitgerðina fékk hún tækifæri til að vinna hjá Birtingahúsinu sem birtingaráðgjafi. „Það var frábær skóli og hjálpaði mér mikið þegar ég fékk mitt fyrsta gigg sem markaðsstjóri, að þekkja birtingarheiminn aðeins.“ 

Markaðsstjórastarfið hjá Jarðböðunum við Mývatn var líka að sögn Heiðu lærdómsríkt: „..þar fékk ég það verkefni að byggja upp og viðhalda sterku vörumerki Jarðbaðanna.“


Krefjandi að markaðssetja orku

„Síðan sá ég tækifæri hjá Orkusölunni, sem er fyrirtæki sem ég hef alltaf litið upp til fyrir að vera framsækið og markaðsdrifið frá fyrsta degi.“ Í byrjun snérust helstu verkefni Heiðu að uppbyggingu vörumerkis Orkusölunnar með það að markmiði að skapa virði fyrir viðskiptavini fyrirtækisins.

Ein helsta áskorunin segir Heiða var að byggja upp vitund og ímynd vörumerkisins enda er erfitt að búa til skýra aðgreiningu í huga neytanda þar sem ekki er um haldbæra vöru að ræða.

Orkusalan fer litríka leið í markaðsmálum


Árið 2023 var Heiða svo kosin í stjórn Kvenna í orkumálum (KÍO), þar sem markmiðið er að því að lyfta konum upp í orkugeiranum, vekja athygli á fjölbreytileikanum sem býr þar og gefa konum í greininni rödd og sviðsljós sem þær eiga skilið.

„Þetta hefur verið ótrúlega hvetjandi og gefandi hlutverk, þar sem ég get lagt mitt af mörkum til að breyta og bæta.“ segir Heiða.

Hefuru gert mistök í starfi sem reyndust vera góður lærdómur? Hvað fór úrskeiðis?

„Ég er þokkalega hvatvís og hef gert fullt af mistökum sem ég vil meina að hafa hjálpað mér að komast á þann stað sem ég er á í dag. Oft er sagt að þau sem gera aldrei mistök séu þau sem reyna ekki neitt nýtt. Mistök neyða okkur stundum að hugsa út fyrir kassann og finna nýjar lausnir sem við hefðum annars ekki séð. Mistök eru því oft nauðsynleg.“ segir Heiða.

Hvernig er deildin þín uppsett og hlutverkin?

„Á sviðinu okkar starfa alls tólf starfsmenn sem vinna náið saman að sameiginlegum markmiðum. Lykillinn að okkar árangri er fyrst og fremst sterk liðsheild – við vitum að við náum ekki árangri nema sem ein heild þar sem traust, samskipti og samvinna eru í forgrunni“ segir Heiða.

Hún útskýrir að sölustjóri ásamt viðskiptastjórum bera ábyrgð á allri sölu fyrirtækisins, hvort sem það er b2b eða b2c.

Markaðsstjóri ber ábyrgð á markaðsteyminu en í því teymi sé grafískur hönnuður og einn sérfræðingur í markaðsmálum. Þjónustustjórinn leiðir síðan alla þjónustu fyrirtækisins ásamt sölu- og þjónusturáðgjöfum.




Heiða nefnir að þau séu einnig með orkuskipti fyrirtækisins á þeirra sviði en þar er sérfræðingur í hleðslulausnum sem ber ábyrgð á því risa verkefni ásamt rafvirkja.

Heiðar bætir við að mikil áhersla sé lögð á að skapa jákvætt, skemmtilegt og hvetjandi vinnuumhverfi þar sem allir hafa tækifæri á að segja sína skoðun. 

Hvernig lítur hefðbundinn vinnudagur út hjá þér?

„Það sem er skemmtilegast við starfið mitt er að það ótrúlega fjölbreytt.

Dagarnir byrja samt allir frekar eins.. þokkalega kaotísk stemning að koma krökkunum í skólann og passa að allir séu með allt. Þegar ég mæti upp í vinnu þá geng ég mjög hratt að kaffivélinni og skelli í mig einum bolla.

Mér finnst mjög mikilvægt að byrja daginn á smá spjalli við starfsfólk, það gefur mér mikið að hlusta og spegla við samstarfsfélaga.

Heiða með Heiðu í hönd




Ég fer yfir to do listann minn sem er stundum í notes, stundum í asana og stundum í höfðinu á mér og byrja á þeim verkefnum sem eru mikilvægust hverju sinni. Ég er í miklum samskiptum við teymið og eru boðleiðirnar stuttar sem mér finnst vera mikill kostur.

Við erum með vikulega fundi þar sem við förum yfir stöðuna og hver og einn fer yfir sín verkefni til að teymið sé vel upplýst“ segir Heiða.

Harðduglegur starfsmaður ársins

Hún lýsir því hvernig þau hjá Orkusölunni hafi farið í stefnumótun fyrir tveimur árum og sett skýr markmið til þriggja og fimm ára en markmiðin séu langt frá því að vera rykfallið plagg ofan í skúffu:

„Þessi markmið eru ekki bara eitthvað sem við settum á blað og gleymdum – við förum reglulega yfir þau á fundum og vinnum markvisst að því að ná þeim.

Þetta heldur okkur á tánum, gefur okkur skýra sýn og sameiginlega stefnu sem við vinnum öll að saman.“

Heiða og teymið sitja þó ekki límd við tölvuskjáinn allan daginn heldur sé hvíld tekin út í vinsælasta sporti landsmanna, pílu: „Það er mjög mikilvægt að standa reglulega upp frá borðinu og fara í pílu.

...píluspjaldið inn í eldhúsi hefur verið kosið starfsmaður ársins þrjú ár í röð!

„Bæði flott og verðskuldað“ bætir Heiða við og skellir upp úr. 


Hvaða tól og tæki (öpp t.d) gætir þú ekki lifað án í markaðsstarfinu?

„Ég myndi segja að Asana sé það tól sem hefur hjálpað mér að forgangsraða verkefnum og halda betur utan um dagleg verkefni. Ég er síðan líka mikið fan af PowerBI skýrslum og skoða þær meira en góðu hófi gegnir.“

Heiða segir að hönnunarforritið Canva hafi einnig komið sér langt en:
„…sem betur fyrir fer (fyrir alla) erum við komin með grafískan hönnuð í teymið sem er einnig þekktur undir nafninu töframaðurinn.. því hann getur græjað gjörsamlega allt!“ 

Hvað vildir þú óska að fólk vissi um þitt starf en hefur ekki hugmynd um? 

Heiða hugsar til ákveðinnar mantraðsmöntru sem hún segir kristalla eitthvað sem hún myndi vilja að fleiri gerðu sér grein fyrir:

„Markaðsmál snerta allar deildir fyrirtækisins og er því mikilvægt að markaðsmál séu skoðuð á heildrænan hátt.“

Heiða nefnir að það væri flott að fá til dæmis listamanninn vinsæla Leif Ými til að taka möntruna og gera úr henni listaverk og gefa öllum stjórnendum fyrirtækja á landsvísu að gjöf. 


„Ég vil þó meina að það séu fleiri stjórnendur í dag en bara fyrir nokkrum árum sem eru sammála þessari setningu en ég byggi það aðeins á áreiðanlegum tilfinningum en ekki gögnum.“

Heiða bendir á að markaðsmál skipta sköpum fyrir fyrirtæki, þau skapi skapa sterka ímynd, auki sýnileika og byggja upp traust hjá viðskiptavinum. 

„Vel útfærð markaðsstarfsemi skilar sér ekki bara í aukinni sölu og betri samskiptum við markhópinn heldur eykur það líka samkeppnisforskot á markaði. Það er því mikilvægt að markaðsstjórar séu með í ákvarðanatökum sem eru teknar á stjórnenda sviði því vöxtur fyrirtækja og sterkt samkeppnisforskot verður ekki til nema með akkúrat þetta fólk um borð.“

Einsleitur markaður krefst ríkari áherslu á vörumerki

Raforkumaðurinn er einsleitur segir Heiðar og þess vegna skipta ímynd og gæði þjónustu sköpum þegar kemur að því að standa framar en önnur fyrirtæki. Að mati Heiðu er sterk ímynd vörumerkis lykilinn að því að skapa langtímaárangur á markaði.


„Vörumerki með skýra og sterka ímynd er líklegra til að vera með sterkari aðgreiningu en aðrir og byggja þannig upp traust meðal viðskiptavina og skapa jákvæð hugrenningartengsl við vörumerkið.“

Hún segir þau stöðugt vera að mæla og meta frammistöðu vörumerkisins. Þau framkvæmi markaðsrannsóknir og vörumerkjamælingar, skoða umferð á vefsíðu, mæla árangur herferða og kanna hegðun neytenda á markaði svo eitthvað sé nefnt.

Vinna við að byggja upp og viðhalda velheppnuðu vörumerki á raforkumarkaði sé heldur ekkert huglægt mat segir Heiða:

„Ég held að það sé eitthvað sem ekki allir átta sig á, að árangur starfsins okkar er ekki byggt á tilfinningu - heldur áreiðanlegum gögnum.“

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Nýtt sérfræðifag fyrir bragðlauka
frétt
November 6, 2024

Nýtt sérfræðifag fyrir bragðlauka

TEXTI
Ritstjórn
Hamar, nagli og miðlaþröngsýni
pistill
November 4, 2024

Hamar, nagli og miðlaþröngsýni

TEXTI
Þórarinn Hjálmarsson
Banki fyrir blanka: Skæruliða-markaðsetning í þágu öryrkja
verkefni
October 30, 2024

Banki fyrir blanka: Skæruliða-markaðsetning í þágu öryrkja

TEXTI
Ritstjórn