Hugmyndin að svona víðtækum og reglulegum mælingum kviknaði fyrir ríflega 10 árum þegar Maskína hafði um nokkurra ára bil orðið vör við miklar breytingar í sínum gögnum á því hvernig neytendur á Íslandi lögðu mat á keypta vöru og þjónustu. Breytingin fólst í því að neytendur fóru í auknu mæli að móta sér skoðun á fyrirtækjum eftir því fyrir hvað þau stóðu frekar en bakgrunn þeirra eða sögu.
Varðandi meðmæli í markaðslegum skilningi (word of mouth) þá hafa mælingar Maskínu einmitt staðfest að langflestir (eða yfir 80%) treysta mest meðmælum frá fólki sem það þekkir á meðan flestir aðrir miðlar mælast almennt með á bilinu 10-40%. Með tilkomu samfélagsmiðla eru rásirnar til þess að mæla með eða hallmæla fyrirtækjum orðnar enn fleiri sem hefur ýkt áhrif þessara breytinga.
Meðmæling Maskínu hefur nú kortlagt upplifun almennings á þjónustu fyrirtækja frá árinu 2014. Mælingin í ár náði til 193 fyrirtækja í 26 atvinnugreinum – sem gerir mælinguna að umfangsmestu NPS og þjónustuánægju mælingunni sem framkvæmd er á Íslandi (til samanburðar eru mæld 40 fyrirtæki í Íslensku ánægjuvoginni).
Mælingin er gerð í spurningavagni Maskínu sem byggir á þjóðarúrtaki og er ekki mögulegt að sjálfskrá sig til þátttöku. Þetta er gert til að og tryggja réttmæti gagnanna og koma í veg fyrir mæliskekkju. Spurt er hvaða fyrirtæki fólk hafi átt viðskipti við í hverri atvinnugrein og svo hversu líklegt fólk er til að mæla með eða hallmæla þessum fyrirtækjum (NPS) auk ánægju með þjónustuna - NPS er alþjóðlegur kvarði sem notaður er sem mælikvarði á tryggð viðskiptavina.
Á vef Maskínu má sjá þau fyritæki sem mæld voru og staðsetningu þeirra á Meðmælingarkvarðanum.