Lobster snjóbretti var stofnað árið 2011 af akureysku snjóbrettaköppunum Eiríki og Halldóri Helgasynum ásamt snjóbrettaframleiðandanum Low Pressure Studio í Amsterdam. Geiri segir þá bræður hafa staðið á tímamótum á sínum ferli með stóra samninga við Nike og Oakley í vasanum en voru án samnings við fyrirtæki sem framleiddi snjóbretti.
„Eika og Halldóri fannst vanta snjóbrettavörumerki þar sem hamingja, lífsgleði og leikur væru drifkrafturinn“
lýsir Geiri. Þegar tækifærið gafst til að stofna Lobster með Pressure Studios var ákvörðunin að sögn Geira einföld - þeir bræður stukku á það!
Á árunum eftir urðu miklar vendingar þar sem Lobster var m.a. keypt af einu stærsta snjóbrettamerki heims, Nidecker, og sameinaðist svo fyrir stuttu öðrum merkjum undir formerkjum #YES. Nú var litla íslenska merkið komið á stóra sviðið og merkið orðið alþjóðlegt - með öllu sem því fylgir.
„Með nýjustu sameiningunni munu umsvifin okkar áttfaldast á heimsvísu en áætluð velta mun fara úr einni milljón dala upp í átta milljónir“ segir Geiri. Vörur #YES munu þannig fást í 30 löndum og í um 1500 verslunum. Breyting af þessari stærðargráðu kallar á stórfelld tækifæri segir Geiri, sérstaklega með innkomu á stærstu markaðina sem eru Bandaríkin og Kanada, það gefi auga leið að með þessu sé hægt að þróa og stækka vörulínuna enn frekar.
Þrátt fyrir mikinn veldisvöxt segir Geiri þróunina hafa verið náttúrulega: „Það er frábært að vinna með samsteypu og eigendum sem hafa mikla ástríðu fyrir snjóbrettamenningu og lífsstílnum sem fylgir því að renna sér á snjóbretti. Við finnum fyrir miklum stuðningi við að keyra okkar sýn áfram og skapa eitthvað einstakt sem hefur ekki sést áður í snjóbrettaheiminum.“
„Á heimsvísu er þetta nokkuð stór heimur, talið er að um 20 milljón manns iðki snjóbretti um allan heim“ segir Geiri en töluvert af íslensku snjóbrettafólki hefur verið farsælt í greininni. Ísland sjálft sé auðvitað ekki stór markaður fyrir snjóbrettavörur en hér sé hins vegar mjög virk sena og mikið af ungu og efnilegu snjóbrettafólki.
Aðspurður hvaða skorður fylgi svo mikilli stækkun segir Geiri þær í raun fáar, merkið hafi alltaf starfað á alþjóðlegri grundu en nú sé kakan einfaldlega búin að stækka og í því séu fólgin mikil og spennandi tækifæri. Helsta aðlögunin í starfi Geira hafi verið að vinna með stærri hóp af fólki sem er dreift um allan heim en samsteypan sem á #YES er með skrifstofur í Sviss, Hollandi og Bandaríkjunum.
Geiri sjálfur vinnur heiman frá sér á Íslandi og kveðst ánægður með að geta setið og unnið markaðsstarf fyrir stórt alþjóðlegt fyrirtæki frá heimaskrifstofunni í bílskúrnum, það sé kærkomin breyting eftir mikið flakk um heiminn.
Geiri, sem starfað hefur við markaðsmál #YES, áður Lobster, í fjöldamörg ár hefur því fylgt merkinu eftir nánast frá byrjun og er ekki að mikla þetta stóra verkefni fyrir sér þrátt fyrir að áform #YES séu gríðarstór.
„Ég tek með mér íslensku bjartsýnina og þetta reddast ...
inn í þessa nýju vegferð og reyni bara að „borða” þennan alþjóðlega „markaðsfíl” með einum bita í einu“ segir Geiri.
Það hjálpar kannski að Geiri er sjálfur forfallinn snjóbrettaáhugamaður og segir það hafa verið ákveðin forréttindi að tvinna saman markaðsstarfið og sportið í eitt. „Ég hef verið heppin að starfa við fjölbreytt verkefni á mínum markaðsferli og frábært að fá að nýta þá reynslu á alþjóðlegum grundvelli. Það er líka ómetanlegt að fá að starfa í heimi sem ég brenn fyrir, verandi sjálfur snjóbrettavitleysingur til margra ára.“
Verkefnin fram undan hjá Geira og teyminu hjá #YES er að stækka og styrkja stöðu #YES í snjóbrettaheiminum og muni þau leggja mikla fjárfestingu í að festa merkið í sessi. Framtíðarplönin séu svo ekki af minni gerðinni og þau horfi til stórra vörumerkja á borð við Palace, Liquid Death og Supreme sem næstu landvinninga. Það er því vert að fylgjast vel með #YES í brekkunum, stefnan er sett á toppinn.