Undanfarið hefur Már starfað sem framkvæmdastjóri Fasteignasölunnar Mikluborgar og sem ráðgjafi við stefnumótun, rekstur og samskipti. Á árunum 2016-2022 starfaði Már hjá Bláa Lóninu, lengst af sem framkvæmdastjóri viðskipta- og rekstrarsviðs. Áður starfaði Már hjá Íslandsbanka og forvera hans, sem forstöðumaður samskiptamála, stafrænna dreifileiða og á skrifstofu bankastjóra. Þá var hann upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins um skeið og viðskiptafulltrúi við sendiráðið í Kaupmannahöfn frá 2004-2006.
Már er með B.Sc. gráðu í alþjóðaviðskiptum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS) og M.Sc. gráðu í stjórnun, samskiptum og stefnumótun frá háskólanum í Lugano í Sviss (USI).
Ráðgjafafyrirtækið Athygli var stofnað árið 1989 og sérhæfir sig í dag í stjórnendaráðgjöf, samskiptaráðgjöf, upplýsingamiðlun og stefnumótun. Félagið er samstarfsaðili norska ráðgjafafyrirtækisins Geelmuydeen Kiese sem er með skrifstofur í Osló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi.
Kolbeinn Marteinsson, framkvæmdastjóri og ráðgjafi hjá Athygli:
,,Már mun spila veigamikið hlutverk í þeirri vegferð sem fram undan er hjá Athygli. Við höfum undanfarið lagt mikla vinnu í stefnumótun og þá þjónustu sem við viljum veita íslensku atvinnulífi, stjórnmálum, stofnunum og félagasamtökum og mun sérþekking Más og reynsla verða okkur ómetanleg, auk þess sem hann er með afbrigðum röggsamur og ráðagóður.”
Már Másson, meðeigandi og ráðgjafi hjá Athygli:
,,Ég er afar ánægður með að vera genginn til liðs við Athygli og hlakka til að vinna með því einvala liði sem starfar hjá fyrirtækinu. Athygli hefur á löngum starfstíma byggt upp sterkt orðspor sem grundvallast á vönduðum vinnubrögðum, ábyrgð og fagmennsku og hefur þróast í takt við breytingar í viðskiptalífi og samfélagi. Samstarfið við Geelmyudeen Kiese á Norðurlöndunum hefur þegar opnað dyrnar að áhugaverðum verkefnum og gerir okkur kleift að þjónusta bæði íslensk og skandinavísk fyrirtæki og stofnanir og felur í sér áhugaverð tækifæri til framtíðar.“