Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Catecut, sem hefur þróað öflugt gervigreindarlíkan sem greinir eiginleika fatnaðar út frá aðeins myndum og skilar sjálfvirkt vörulýsingum og SEO-merkingum á vörusíður fatasala, tilkynnti í dag að athafnakonan Áslaug Magnúsdóttir hafi tekið sæti í stjórn félagsins.
Áslaug er stofnandi tískumerkisins Katla, meðstofnandi og fyrrverandi forstjóri Moda Operandi og fyrrverandi stjórnandi hjá Gilt Groupe.
„Áslaug er einn virtasti frumkvöðull tískuheimsins og hefur leitt stafræna breytingu í lúxustísku og netverslun á heimsvísu síðustu tvo áratugi,“ segir Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Catecut.
„Hún var jafnframt valin ein af 50 valdamestu konum í tískuheiminum af vefritinu Fashionista. Hún hefur nú þegar haft jákvæð áhrif á stefnumótun okkar með innsýn sinni í alþjóðlegan tískuiðnað. Það er okkur sannur heiður að fá hana í stjórn.“
„Teymið hjá Catecut hefur þá reynslu og tækni sem þarf til að umbreyta netverslun með fatnað með því því að leysa margar raunverulegar áskoranir í rekstri, og upplifun viðskiptavina,“ segir Áslaug Magnúsdóttir.
Fyrr á árinu kynnti Catecut sjálfvirka vörumerkingarlausn sína og hefur nú þegar vakið athygli á alþjóðlegum vettvangi.
Lausnin var kynnt fyrir evrópskum tískuvörumerkjum á Copenhagen International Fashion Fair í febrúar og hefur einnig verið til kynningar í Bandaríkjunum nýverið og tekið þátt í stórum sölusýningum vestan hafs.