Til Baka
DEILDU
„Make it look easy!“

„Make it look easy!“

viðtal
February 20, 2025
Texti
Ritstjórn
Mynd
Aðsendar
Það eru eflaust margir sem kannast við Camillu Rut sem áhrifavald á samfélagsmiðlum enda var hún ein af fyrstu starfandi áhrifavöldum á Íslandi, ekki skrýtið fyrir svona hrífandi og líflega manneskju. Camilla Rut Arnarsdóttir eins og hún heitir fullu nafni hefur nýverið tekið við sem verkefnastjóri markaðsmála hjá Aranja og fer hér yfir ferilinn sinn og hversvegna hún skilgreinir sig sem fyrst og fremst sögukonu í sínum starfsframa.

„Ég er með þeim fyrstu sem gerði áhrifavalda starfið að fullu starfi, ég vann við það að áhrifavaldast (ef svo má segja) í hinum ýmsu verkefnum í rúm átta ár. Á þeim tíma öðlaðist ég mikla innsýn og djúpa þekkingu á samfélagsmiðlum sem og skilninginn á svokallaðri sögusköpun í markaðsstarfi vörumerkja“ byrjar Camilla á að útskýra.


„Ég sérhæfði mig í að segja sögur sem tengdust mér persónulega og vann með fjölda vörumerkja sem áttu góða samleið með mínu eigin vörumerki sem áhrifavaldur. Í gegnum árin lagði ég mikla áherslu á að halda í mín eigin gildi og talaði aldrei um vörur eða þjónustur sem ég tengdi ekki við eða notaði sjálf.


Á milli verkefna sótti ég nám hjá Sahara Academy til að dýpka þekkingu mína á efnismarkaðssetningu á samfélagsmiðlum. Þekkingin sem ég sótti þar hefur reynst mér vel til að sameina krafta mína í efnismarkaðasetningu og að skipuleggja markvissar herferðir á stafrænum miðlum“ segir Camilla.


Í dag starfar hún sem verkefnastjóri markaðsmála hjá Aranja sem sérhæfir sig í þróun hugbúnaðarlausna og skapandi tækniverkefna. Þar leiðir hún markaðssetningu afurða Aranja ásamt því styðja við dótturfélög Aranja líkt og Hopp Reykjavík. Camilla segir reynslu sína úr samfélagsmiðlaheiminum í bland við þekkingu á markaðssetningu og stafrænum herferðum nýtast til að koma vörum og hugmyndum fyrirtækisins á framfæri á sem skilvirkastan hátt.

Camilla Rut hefur nýverið tekið við starfi verkefnastjóra markaðsmála hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja.


Hvernig æxlaðist það að þú fórst frá því að vinna sem áhrifavaldur og yfir í stöðu verkefnastjóra markaðsmála hjá hugbúnaðarfyrirtæki?

„Eftir góð átta ár í áhrifavaldastarfinu og reynslunni sem fylgir að byggja upp eigin miðla fann ég hvernig ég vildi taka þetta lengra. Mér fannst ég svosem búin að toppa mig þeim megin, hefði haft tækifæri til að fara lengra með þetta og jafnvel út fyrir landssteinana en það kallaði ekki á mig svo ég fór einfaldlega að líta í kringum mig.

Mér bauðst starf hjá Hopp Reykjavík sem verkefnastjóri markaðsmála og hef ég sinnt því starfi í tæpt ár núna sem hefur verið virkilega gefandi, lærdómsríkt og mikil reynsla í bankann fyrir mig. Teymið mitt þar er eins og fjölskylda mín en ég verð þeim ævinlega þakklát fyrir að taka mig með í ferðina. Í byrjun þessa árs tók ég svo við fullu starfi hjá móðurfélaginu þeirra, Aranja hugbúnaðarhúsi sem verkefnastjóri markaðsmála þeirra afurða og skemmtilegra tækniverkefna sem verða til innanhúss þar“ segir hún.


Hvaða þætti úr áhrifavaldastarfinu sérðu nýtast í núverandi stöðu?

„Ég er ekki mikið fyrir að kalla mig „markaðsmanneskju“ heldur vil ég meina að ég sé sögukona. Því ég sérhæfi mig í að segja sögur og tel styrkleika mína liggja í því að taka verkefni vörumerkjanna okkar og tengja notendur við tæknina út frá sögusköpun ef svo má segja. Ég öðlaðist gríðarlega reynslu í efnismarkaðssetningu á samfélagsmiðlum og hvernig byggja má sterk tengsl á milli vörumerkja og neytenda í gegnum sögur fólksins. Ég lærði að lesa í markaðsstrauma, greina hvað virkar og skapa efni sem nær árangri og nýti það nú í starfi mínu fyrir önnur vörumerki.


Í dag nýtist þessi blanda af persónulegri reynslu, skapandi hugsun og stafrænni markaðssetningu til að byggja upp afurðir okkar innanhúss, efla notendaupplifun og byggja upp herferðir sem tengja fólk og tæknina á áhrifaríkan hátt. Það sem ég elska við þetta allt saman er að lærdómurinn frá áhrifavaldastarfinu nýtist mér enn því í hjarta hvers árangursríks verkefnis er alltaf góð saga (e. story)“ segir Camilla.

Camilla Rut er fyrst og fremst sögukona.


Hvað hefur verið stærsta áskorunin faglega séð á þessu tímabili?

„Stærsta áskorunin faglega séð hefur verið að færa mig frá persónulegri markaðssetningu yfir í stærri heildarsýn á markaðsmál vörumerkja, þar sem fókusinn er ekki lengur bara á mitt eigið heldur á að byggja upp og styrkja vörumerki annarra. Það krafðist þess að ég myndi breyta hugsunarhætti frá því að búa til efni fyrir mína áhorfendur yfir í að skipuleggja markaðsherferðir fyrir fjölbreytta hópa viðskiptavina og notenda.


Einnig hefur það verið virkilega skemmtileg áskorun að kafa dýpra í tæknilegu hlið stafrænnar markaðssetningar eins og árangursmælingar og auglýsingakerfi þar sem gögnin mæta sköpunargleðinni“ útskýrir Camilla.


Hvenær áttaðir þú þig á því að þú sætir á mikilli reynslu í markaðsmálum?

„Ég held að það hafi gerst í samtölum mínum við fólk og eigendur vörumerkja. Þegar fólk fór að leita til mín úr öllum áttum til að fá ráðgjöf og aðstoð við sýnileika sinn á samfélagsmiðlum áttaði ég mig á smám saman á hversu mikilli þekkingu ég sæti á í þessum efnum. Allt sem ég ráðlagði öðrum fannst mér svo sjálfsagt og ég hélt einhvernvegin að allir vissu en svo sagði einn aðili við mig:


"Reynsla þín og þekking á samfélagsmiðlum og efnismarkaðssetningu er eitthvað sem er ekki kennt í skóla. Hún er einstök og getur nýst mörgum"


Þá kviknaði á perunni. Það sem mér fannst svo innilega sjálfsagt að vita og sat á er ekki endilega sjálfsagt fyrir aðra. Ég hugsa oft að þessi átta ár mín á samfélagsmiðlum hafi verið minn eigin skóli, nokkuð langur skóli reyndar sem ég útskrifast örugglega aldrei úr en ég má eiga það að það er alltaf gaman hjá mér“ segir hún og skellir upp úr.


„En þegar ég fór að taka að mér ráðgjöf og verkefni fyrir önnur vörumerki fann ég að ég stoppaði alltaf á sama stað: vörumerkin vildu flest geta keyrt kostaðar herferðir á miðlunum líka og ég kunni einfaldlega ekki á vinnusvæðið. Ég vildi heldur ekki gera bara „eitthvað“ því ég fer ekki í fjárhættuspil með annarra manna peninga, ég vil frekar geta staðið og fallið með öllum mínum herferðum og svarað fyrir það hvert peningarnir eru að fara. Það varð til þess að ég skráði mig í Sahara Academy til að geta þjónustað vörumerkin allan hringinn. Bæði í organic-samfélagsmiðlaumsjón og kostuðum herferðum líka. Þannig tengist reynsla mín úr samfélagsmiðlaheiminum og efnismarkaðsetningu við tæknilegu þekkinguna á stafrænu herferðunum... ég elska þessa blöndu!“

Áhrifavaldur er í raun markaðsstjóri fyrir sitt eigið vörumerki segir Camilla.


Hvað er nýtt fyrir þér sem þú hefur þurft að tileinka þér?

„Ég hef þurft að kafa dýpra í tæknileg verkfæri stafrænnar markaðssetningar eins og auðkenningarlausnir, aðgangsstýringar og notendaupplifun. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá eru það öll þessi kerfi og vinnusvæði fyrir skipulagið, tímastjórnunina og öllu því sem fylgir sem ég er stöðugt að tileinka mér meira og að æfa mig í. Notion er t.d orðið uppáhaldsvinnusvæðið mitt og Slack er snilldar samskiptatól, ég er að æfa mig í að tímastýra mér með Harvest en þetta kemur allt með kalda vatninu“ segir Camilla og heldur áfram: „Svona skapandi heilar eins og mínir njóta sín mikið í flæðinu en það er hollt og gott að geta rammað sig inn með góðum stuðning og skilning samstarfsfélaga.“

„Ég er einnig alltaf að þróa hæfileikann til að stjórna stærri markaðsverkefnum þar sem ég samhæfi fleiri þætti í eina herferð en það skemmtilega við þetta allt er að vera stöðugt að læra nýja hluti þó ég byggi allt á grunninn minn frá samfélagsmiðlum þar sem skapandi hugsun, storytelling og tenging við markhópinn eru enn lykillinn að árangri.“


Hvað kanntu helst að meta við verkefnin sem þú sinnir í dag?

„Ég kann mest að meta fjölbreytnina og áskoranirnar sem fylgja því að vinna með mismunandi vörumerkjum og markhópum. Það að fá að beita bæði skapandi hlið minni í storytelling og efnisgerð ásamt árangursdrifinni markaðssetningu gerir alla daga skemmtilega. Mér finnst sérstaklega gaman að sjá hvernig herferðir og hugmyndir verða að raunverulegum árangri hvort sem það er aukinn sýnileiki, fleiri viðskiptavinir eða sterkari tenging við markhópinn. Það að geta mælt árangur og stillt strax af er eitthvað sem ég elska við stafræna markaðssetningu því það er alltaf hægt að læra, þróa og bæta“ segir Camilla.

„Svo er það fólkið líka! Ég kann svo innilega vel að meta samstarfið við skapandi teymi, tæknifólk, viðskiptavini og notendur. Það að vinna í verkefnum þar sem allir stefna að sama markmiði en koma að því með ólíka styrkleika er ótrúlega gefandi.“

Telur þú að starf áhrifavalda sé vanmetið í samanburði við önnur störf í markaðsstéttinni?

„Já ég mundi alveg segja að þetta sé virkilega vanmetið sérstaklega þegar kemur að því hversu fjölbreyttir hæfileikar liggja að baki árangri þeirra. Ég segi yfirleitt að starf áhrifavaldsins sé að „make it look easy“ og ef viðkomandi tekst það er viðkomandi að vinna vinnuna sína mjög vel. Það er algengt að fólk sjái aðeins yfirborðið: myndir, myndbönd og stuttar færslur en fólk áttar sig almennt ekki á að það liggur heilmikil vinna og stefnumótun að baki sem er oft í samvinnu með vörumerkjum og þeirra markaðsáætlunum.

Áhrifavaldur er í raun markaðsstjóri fyrir sitt eigið vörumerki

... þar sem viðkomandi sér um allt frá efnissköpun, myndvinnslu, textasmíði og ritstjórn yfir í markaðssetningu, greiningu og viðskiptastýringu. Það sem mér finnst oft yfirsjást er til dæmis:

— Færnin í efnismarkaðssetningu: Flestir áhrifavaldar sérhæfa sig í að segja sögur sem vekja áhuga og kalla fram viðbrögð áhorfanda. Þarna er mikil reynsla og skilningur hvernig á að búa til efni sem fangar athygli og tengir markhópinn saman við vörumerki.

— Reynslan í árangursmælingum: Þau sem sinna starfi sínu vel sem áhrifavaldar fylgjast stöðugt með mælikvörðum eins og birtingum, áhorfi og þátttökuhlutfalli markhópsins. Þau kunna að greina hvað virkar og hvað ekki, þróa svo efnið sitt samkvæmt því en þessi færni er gríðarlega verðmæt í stafrænni markaðssetningu.

— Vörumerkjasköpun (e. branding): Það er alls ekki sjálfgefið að byggja upp vörumerki í kringum sig sem einstakling. Árangur áhrifavalda byggist á trausti, trúverðugleika og skýrri sjálfsmynd sem er grunnur alls árangurs í þeirra starfi.

— Samskipti og viðskiptastýring: Áhrifavaldar vinna oft mjög náið með vörumerkjum og þurfa að skilja þarfir þeirra, samræma sín markmið við þeirra og skapa efni sem þjónar báðum aðilum. Þessi færni sem brúar bilið millið sköpunar og markaðsmarkmiða er einstök.

Áhrifavaldar eru í raun og veru skapandi markaðsfólk, efnisframleiðendur og viðskiptafólk í einni manneskju. Sem áhrifavaldur vinnur maður að mestu leiti einn í dagsdaglegu starfi og ber maður því marga hatta meðal þeirra sem ég taldi upp hér að ofan. Sú reynsla sem ég öðlaðist sem áhrifavaldur hefur reynst mér ómetanleg í verkefnunum mínum í dag allt frá því að keyra árangursríkar markaðsherferðir til þess að segja sögur vörumerkjanna sem ná tengingu við fólk“ segir Camilla.

Myndir þú hvetja fyrirtæki til að íhuga það að fá áhrifavald sem t.d. ráðgjafa eða til að halda vinnustofu?

„Ég myndi telja það nýtast mörgum vörumerkjum, markaðsfólki og stjórnendum vel svona í ljósi þess að samfélagsmiðlar eru ekki að fara úr myndinni á næstunni og er þetta öflugt tól til að auka sýnileika og byggja upp samfélag ef rétt er farið að. Eins og ég kom inn á hér að ofan eru öflugir áhrifavaldar ekki bara skapandi heldur er vinna þeirra gagnadrifin. Þau skilja árangursmælingar og geta hjálpað vörumerkjum að bæta árangur herferða ásamt því að vera vel upplýst um mikilvægi þess að skapa tengingar.


Áhrifavaldar hafa mörg hver reynslu í að skapa efni sem grípur athygli og eykur virkni áhorfanda, þau hafa flest prófað ýmsar aðferðir sjálf allt frá „viral“ trendum yfir í áhrifarík samstörf með vörumerkjum. Þau vita hvað virkar og virkar ekki á miðlunum og geta því komið með innsýn sem byggir á raunverulegri reynslu en ekki bara kenningum“ segir Camilla að lokum.


SKOÐA

FLEIRI GREINAR

HUGSUM LENGRA - eða hættið að vera svona leiðinleg og seljið meira
pistill
February 3, 2025

HUGSUM LENGRA - eða hættið að vera svona leiðinleg og seljið meira

TEXTI
Arnar Halldórsson, Brandenburg
Ólöf til liðs við Athygli
frétt
October 24, 2024

Ólöf til liðs við Athygli

TEXTI
Athygli
Verslaðu hönnun á HönnunarMars
frétt
March 27, 2025

Verslaðu hönnun á HönnunarMars

TEXTI
Ritstjórn