„Síðustu fjögur ár hef ég verið hjá Men&Mice/BlueCat en ég skipti um starf fyrir tveimur mánuðum og tók við sölu- og markaðsmálum hjá Overcast. Overcast er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað 2013 og hefur þróað tvær vörur, Áskel fjártæknihugbúnað og Airserve/Airdate auglýsingatæknihugbúnað og sinnir alhliða vefþróunarverkefnum. Svo er ég í listalífinu að vinna frítt fyrir systur mína Tótu Van Helzing“ útskýrir Vala.
„Ég vann samhliða grunnnáminu mínu í viðskiptafræði fyrir markaðs- og samskiptasvið Háskóla Íslands sem kynnir og fór um landið að kynna Háskóla Íslands, námið og þjónustuna. Í framhaldi af því stofnsetti ég Háskólasnappið - Snapchat HÍ (sælla minninga) sem leiddi mig og Félagsstofnun stúdenta saman. Ég var ráðin dagskrár- og viðburðastjóri Stúdentakjallarans 2017 og tók við öllum markaðsmálum FS (sem á Bóksölu stúdenta, Hámu, Kaffistofur stúdenta, Stúdentagarðana, leikskóla og fl.) og rak hostel í Gamla Garði á vegum FS á sumrin. Þetta var frábær tími og mín mesta gæfa sem ung business kona að fá tækifæri til að spreyta mig í allskonar málum og rekstri.
Eftir þennan tíma ákvað ég að fara í framhaldsnám í University of New South Wales í Sydney og dúxaði (takk fyrir) master í viðskiptum og markaðsfræði. Ég var beðin um að kenna úti en systir mín veiktist svo ég pakkaði saman og kom heim til að vera með henni.
Þegar ég kom heim bauðst mér starf hjá Pipar \ TBWA og í viðskiptaþróun fyrir Men&Mice. Eina ástæðan fyrir því að ég valdi Men&Mice á sínum tíma var útaf sveigjanlegri vinnutíma og ég þurfti að vinna mikið heima og sinna systur minni. Allir sem þekkja mig vita að Pipar er meira ég á blaði og ef að aðstæður hefðu verið öðruvísi hefði ég örugglega verið að spranga þar um í dag ef ég hefði ekki tekið boðinu að kenna úti.
En svona leiðir lífið mann áfram í allskonar verkefnum. Ég endaði með að vera í næstum því 4 ár hjá Men&Mice og lærði ótrúlega mikið og viti menn, ég er mjög góð í tæknilegri sölu. Systir mín var prjónahönnuður og eftir að hún dó hef ég tekið að mér það verðuga verkefni að kynna fólk fyrir listinni hennar og hef haldið sýningar og fyrirlestra um hana í hjáverkum.“
Hefuru gert mistök í starfi sem reyndust vera góður lærdómur?
„Elskan mín góða, ég hef örugglega gert helling af mistökum en ég legg þau samt ekki á minnið. Ég hef verið í allskonar geirum og í öllum störfum, frá framlínu að stjórnun. Ég hugsa oft til vinkonu minnar sem ég var að vinna með hjá Men&Mice, hún sagði alltaf „it’s just DDI, we’re not curing cancer” og mér finnst það ágætis áminning. Maður á alltaf að gera allt eins vel og maður getur með þá vitneskju sem maður býr yfir á þeim tíma, svo lærir maður alltaf eitthvað örlítið og betrumbætir fyrir næstu umferð. Eina sem ég legg mikið upp úr er að vera alltaf að læra eitthvað nýtt, finna mér ný áhugamál, læra af fólki, fara á námskeið - bæði tengt og ótengt vinnunni. Það heldur heilavöðvanum í æfingu og að mínu mati kemur það í veg fyrir stöðnun og útbrennslu.“
Hvernig deildin þín uppsett og hlutverkin?
„Núna er ég bara gamla góða „one woman show”. Ég fékk það stórkostlega tækifæri að búa til sölu- og markaðsdeild alveg frá grunni. Deild sem ég get byggt á mínum gildum og reynslu í B2B tæknilegri sölu. Eftir því sem fyrirtækið stækkar vil ég bæta við mig einhverjum sem er meira gagnadrifinn en ég, einhverjum sem er betri í tæknilegri skrifum en ég, grafískum hönnuði og allskonar fólki sem er klárara en ég.“
Hvernig verkefni ertu með á þínu borði alla jafna?
„Ég er með alla hattana í dag. Ég er ennþá að koma mér inn í starfið og ná utan um allt sem þarf að gera. En núna er ég að leiða algjöra yfirhalningu á vefsíðunum okkar, innleiða CRM kerfi, leggja drög að þjónustustigum, verðlagi, fá endurgjöf frá núverandi viðskiptavinum, sjá um nýsölu, halda uppi samfélagsmiðlunum okkar, skipuleggja vísindaferðir, kynna mér markaðinn innanlands og utan og þetta allt sinnum tveir þar sem vörurnar okkar tilheyra ekki sama markaðnum og eru markaðssettar og seldar á mismunandi hátt.“
Áttu þér draumaverkefni eða eitthvað ákveðið sem þú myndir vilja gera sem þú hefur ekki gert áður?
„Það er ótrúlega gaman og ákveðið draumaverkefni að vera með í vaxtarfasa fyrirtækis, þegar fólk er stórhuga og rær í sömu átt. Það er akkúrat stemningin sem mér finnst umlykja Overcast. Okkur langar að reyna fyrir okkur á erlendum mörkuðum, fara á sölusýningar og hitta fólk fyrir utan landsteinana. Það er risastórt og krefjandi verkefni en líka spennandi.
Mitt persónulega markmið í lífinu er að halda áfram að kynna list systur minnar fyrir heiminum.
Hverjum þykir sinn fugl fagur en hún var stórkostlegasti hönnuður sem ég hef kynnst, önnur eins framsýni, færni og hæfileikar hef ég ekki séð og ég gert hef nú gert ýmislegt, menntað mig, ferðast um heiminn og hitt alls konar fólk. Hún dó tíu dögum eftir 31 ára afmælið sitt og ég neita að hennar saga sé búin. Ég væri að gera heiminum grikk með því að fela þetta í kjallaranum mínum“ segir Vala.
„Alveg frá því að hún byrjaði að hanna þá hafði hún brennandi áhuga á sjálfbærni og það er rauður þráður í allri hennar vinnu. Þannig að mitt draumaverkefni er að stofna tískuhús í kringum hana þar sem aðrir fatahönnuðir með sjálfbærni að leiðarljósi geta hannað undir hennar merki og komið sér á framfæri. Alveg eins og Tom Ford byrjaði að hanna fyrir Gucci og Yves Saint Laurent áður en hann varð sitt eigið.“
Hvaða tól og tæki (öpp t.d) gætir þú ekki lifað án í markaðsstarfinu?
„Ég bý til dæmis ekki svo vel að vera með sér grafískan hönnuð í markaðsdeildinni þannig ég á það til að dunda mér í Canva að búa til misfallegt efni fyrir samfélagsmiðlana okkar. Figma er líka frábært svo ég geti fylgst með og lært af hönnuðinum og komið með input að efni. Asana er frábært fyrir yfirsýn og stöðu verkefna. Hubspot er uppáhalds CRM kerfið mitt, ég byrjaði þar og þurfti svo að fara yfir í þunglamalegt Salesforce og er loksins komin aftur. Þetta er svona eina sem mér dettur í hug í fljótu bragði.“
Hvað vildir þú óska að fólk vissi um þitt starf en hefur ekki hugmynd um?
„Mér finnst virðing fyrir markaðsstarfinu alltaf að vera aukast, fyrir nokkrum árum var þetta fyrsta manneskjan til að fara þegar harðnaði í ári og fyrirtæki þurftu að draga saman. Það hefur breyst. Þetta er að mínu mati fjölbreyttasta staðan í fyrirtækjum, markaðsfólk þarf að vinna þvert á flestar ef ekki allar deildir fyrirtækja og tvinna saman allskonar sjónarhorn til að skapa markaðsstefnuna og persónuna sem fyrirtækið stendur fyrir út á við. Svo einkennir markaðsfólk oft mikil jákvæðni, hvatvísi, vilji fyrir verki og sköpun af því þetta eru allt persónueinkenni þess sem ætlar sér að þrífast í þessu hraða og stundum stressandi starfsumhverfi. Þessi persónueinkenni skila sér sem áhrif á fyrirtækjamenningu og starfsánægju allra. Þetta er auðvitað ekki algilt en oft mjög nærri lagi.“
Ef þú myndir byrja með hlaðvarp í dag hvað myndi það heita?
„Örugglega Keeping up with Vala, þar myndi ég uppfæra fólk um allt sem ég er að gera. Ég er ekkert eðlilega mikill brallari og fæst af mínu nánasta fólki vita um öll verkefnin sem ég er í öllum stundum. Það er alltaf eitthvað að frétta og ég get stundum gleymt að uppfæra þau. Þegar ég er ekki í vinnunni þá er ég að pönkast fyrir systur mína, þegar ég er ekki að því er ég að sauma föt, þegar ég er ekki að því þá er ég að lesa mér til um hákarla á netinu eða á bóndabænum mínum, þegar ég er ekki að því þá er ég í ævintýraferð innanlands eða utan. Svo við það myndu auðvitað blandast ástarmál og fjölskyldudrama eins og alls staðar. Ég held að þetta sé ágætis mix af hlutum sem allir geta tengt við á einn eða annan hátt.“