Þegar ég var að stilla upp mínum fyrstu herferðum, hét þjónustan það sama og ég myndi kalla hana í dag. Umsjón samfélagsmiðlaherferða. Aðgerðin var einföld og ekkert sérstaklega úthugsuð, ef ég á að segja eins og er. En ég var þó ekki seldur út sem sérfræðingur í því á þeim tímapunkti heldur.
Núna, nokkrum árum síðar og talsvert miklum lestri og reynslu ríkari er nálgunin stórkostlega ólík.
Þetta er engan veginn það sama.
— Markaðstrektir eru settar upp, til að stýra því hvaða efni frá fyrirtækinu við viljum að fólk sjái og í hvaða röð það gerist, svo að söluskilaboð komi á viðeigandi tíma, út frá því sem við vitum að viðkomandi hafi séð, til að auka líkur á árangri.
— Awareness herferðir settar upp sem miða á hópa sem (líklegast) vita ekki af fyrirtækinu/vörumerkinu sem um ræðir, með upplýsandi efni sem getur laðað að áhugasama aðila.
— Herferðir sem halda áfram að beina efni að þeim sem sýna áhuga í framhaldinu.
— Textar unnir í takt við vörumerkið, en um leið aðsniðnir að þeim markhópi sem talað er við hverju sinni, þar sem horft er til tilfinninga, virðis, vandamála og lausna.
— Tímasetningar auglýsinga valdar til að auka líkur á að birtingafé nýtist sem best.
Og svo margt fleira mætti telja upp, sem var alls ekki hluti af mínum skilningi þegar ég byrjaði að aðstoða fyrirtæki með þessi mál. Þar fyrir utan hef ég margfalt meiri skilning á því hvernig má tengja efnissköpun, Google auglýsingar, póstlista og fleira við þessar aðgerðir, sem ekki var til staðar áður - en getur aukið virði umtalsvert.
En nafnið á þjónustunni er enn það sama. Umsjón samfélagsmiðlaherferða. Bæði hjá mér og mörgum öðrum.
Við klikkum oft á að útskýra betur hvað er á bakvið þessa vinnu.
Þetta er ekki hilluvara sem er framleidd, sett í pakkningar og upp í hillu í næstu verslun. Þjónustan getur verið afar breytileg, eftir því hver veitir hana og eftir því hvert verkefnið er.
Það er ekki nema von að þetta geti verið ruglandi fyrir fyrirtæki sem vita ekki hvernig þau eigi að snúa sér þegar kemur að stafrænum markaðsmálum og þetta er allt saman eins á blaði þegar leitað er eftir þjónustuaðila - og munurinn er sjaldnast útskýrður.
Þarna er tækifæri til að gera betur. Í það minnsta fyrir mig.
Þessi pistill birtist fyrst á LinkedIn. Höfundur er Sigurður Már Sigurðsson, sérfræðingur í stafrænni markaðssetningu hjá Arcade.