Til Baka
DEILDU
Kominn tími á Kombakk?

Kominn tími á Kombakk?

herferð
December 3, 2024
Texti
Hvíta Húsið
Mynd
Hvíta Húsið

Neonskilti með orðinu Kombakk kitlaði nýverið forvitni Íslendinga og kom síðar í ljós að um nýjustu vitundarvakningu VIRK starfsendurhæfingarsjóðs var að ræða. Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK svaraði nokkrum spurningum um herferðina og áhrif markaðssetningar á rótgróin viðhorf samfélagsins.

Herferðin Kombakk var sett af stað til að skapa meðvitund og styðja við einstaklinga sem snúa aftur á vinnumarkað eftir brotthvarf. Markmið herferðarinnar var að vekja athygli á mikilvægi þess að vinnustaðir séu opnir og styðjandi gagnvart fólki sem tekur það mikilvæga skref að snúa aftur út í atvinnulífið, ásamt því að fjölga fyrirtækjum og stofnunum á skrá hjá VIRK. „Það eru nú þegar um 2000 fyrirtæki á skrá hjá okkur en við erum í reglulegu sambandi við um 500 fyrirtæki,“segir Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK. „Ávinningur fyrirtækja af samstarfinu er fyrst og fremst að fá gott fólk til starfa. Við leggjum okkur fram við að finna einstaklinga sem passa í það starf sem um ræðir og að finna starf sem viðkomandi hefur bæði áhuga á og þekkingu og getu til að sinna. Atvinnurekandinn tekur hins vegar ákvörðun um ráðningu út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir.“

VIRK vann að herferðinni í samstarfi við Hvíta húsið auglýsingastofu. „Við á Hvíta húsinu höfum orðið töluverða reynslu af vitundarvakningum og þekkjum því vel hve erfitt er að ná athygli með þungum skilaboðum á mettuðum auglýsingamarkaði. Þau hjá VIRK hafa hins vegar alltaf verið til í að fara hugrakkar leiðir í sínum nálgunum með okkur og notað húmor eða jafnvel satíru í herferðum eins og Það má ekkert lengur eða Brjálað að gera." segir Gunnar Þór Arnarson, yfirumsjónarhönnuður á Hvíta húsinu.

„Í þessu tilfelli langaði okkur að ná í gegn með því að byggja upp forvitni og eftirvæntingu fyrir skilaboðunum, með dularfullum kitl-fasa ...

Sjálf auglýsingin birtist okkur svo í lokin sem hjartnæm Retro Stefson gleðisprengja!"

Orðið Kombakk var valið sem hornsteinn herferðarinnar til að vekja þessa forvitni en það hefur yfirtóna eftirvæntingar, ólíkt hinu miklu hlutlausara orði endurkoma. Það fólst vissulega áhætta í að nota tökuorð, en til þess var leikurinn einmitt gerður, að grípa athygli og fá almenning til að bíða í eftirvæntingu eftir skilaboðunum.

Kitl-tímabilið var nýtt til að skapa spennu í öllum helstu miðlum. Einfalt myndefni með orðinu í forgrunni og nýrri vísbendingu á hverjum degi var dreift í fimm daga fyrir frumsýningu. Þekkt andlit birtu myndir af sér í kombakk-bolum á samfélagsmiðlum og fólk reyndi að giska hverjir áttu skuggamyndirnar á skiltum bæjarins.

„Með hjálp Retro Stefson sem eru sjálf með endurkomutónleika í ár, náðum við að spegla söguna af því að koma aftur, hvort sem það er á svið eða til vinnu. Þau ljáðu laginu Back to Life með Soul II Soul sinn stíl sem endurspeglaði þemað og tilfinninguna í herferðinni fullkomlega. Rúsínan í pylsuendanum var svo að Unnsteinn Manuel leikstýrði sjálfur auglýsingunni með frábærri framleiðslu Republik." segir Gunnar.

Aðspurð hvort VIRK finni fyrir auknum áhuga á starfssemi þeirra þegar þau eru sýnileg á auglýsingamiðlum svarar Vigdís. "Já við finnum það svo sannarlega. Okkar herferðir hafa alltaf skýrt markmið. Við erum yfirleitt að reyna að hafa áhrif á samfélagið til góðs með því að velta upp ákveðnum þáttum, stundum á aðeins kómískan hátt. Í leiðinni vekjum við athygli á starfsemi VIRK og fáum fleiri til samstarfs, bæði einstaklinga og fyrirtæki."

Vitundarvakningar þurfa einföld skilaboð sem höfða til fjölbreyttra markhópa. „Sumar hugmyndir virðast bara smella og þegar fyrirtæki þekkja virði markaðssetningar virðast hlutirnir renna smurt áfram. Auglýsingin sjálf er í anda tónlistarmyndbands, aðalleikkonan, táknmynd einstaklings sem snýr aftur eftir veikindi, mætir inn í vinnustað þar sem hljómsveitarmeðlimir taka fallega á móti henni. Skilaboðin eru í grunninn mjög einföld; tökum vel á móti þeim sem snúa aftur á vinnumarkaðinn. Við erum vissulega að tala við stjórnendur fyrirtækja en líka bara almenning allan á vinnumarkaði því grunnurinn að farsælum vinnustöðum er menning sem styður við einstaklingana sem þar starfa." segir Gunnar.

Undir þetta tekur Vigdís. „Árangur VIRK grundvallast í raun á góðu samstarfi við samfélagið í heild sinni, við einstaklinga, fagaðila, fyrirtæki og stofnanir. Okkar markaðsherferðir tala því til samfélagsins á víðum grunni þar sem markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar, jafnvel breyta viðteknum hugmyndum og viðhorfum og bæta samfélagið.“

Vigdís segir að fyrirtæki geti á margan hátt stutt betur við fólk sem kýs að snúa aftur á atvinnumarkað. „Mikilvægt er t.d. að vinnustaður gefi starfsfólki kost á að koma smám saman til vinnu í kjölfar veikinda eða slysa. Oft veit fólk ekki alveg hvað það ræður við til að byrja með en langar að byrja að taka þátt og prófa sig áfram. Það þarf því að vera til staðar ákveðinn sveigjanleiki sem getur bæði snúið að vinnutíma, verkefnum og vinnuaðstöðu. Þannig getur einstaklingur snúið til baka fyrr og á öruggan hátt í verkefni sem hæfa getu hans. Það hefur einnig reynst vel að tryggja starfsfólki með skerta starfsgetu svokallaðan starfsvin eða mentor sem er þá starfsmaður á vinnustaðnum sem viðkomandi getur leitað til og fengið stuðning hjá fyrstu vikurnar á meðan viðkomandi er að taka fyrstu skrefin."

Sú nálgun að nota þekkta hljómsveit og tengja söguna við tónlistarmyndband skapar eftirminnilega og tilfinningaþrungna upplifun sem margir kannast við. Með réttri blöndu af skemmtun og innihaldsríku efni er hægt að fá fólk til að hugsa djúpt um mikilvæga þætti sem snúa að atvinnulífi og lífsgæðum. Fyrirtæki og stofnanir hafa tekið til sín skilaboðin en listi fyrirtækja hefur stækkað hjá Virk eftir að herferðin fór í loftið.

Að lokum, fyrir þau fyrirtæki sem eru áhugasöm um þátttöku í Atvinnutenginu VIRK er hægt að skrá sig á kombakk.is síðunni eða hafa samband gegnum netfangið atvinnutenging@virk.is biðja um samband við atvinnutengil. Og fyrir þau sem vilja styðja endurkomu Retro Stefson, er enn hægt að nálgast miða á tónleikana þeirra þann 28.desember.

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Krónan kemur með jólin til þín
herferð
December 12, 2024

Krónan kemur með jólin til þín

TEXTI
Brandenburg
Hvatvísi Íslendinga bæði kostur og galli
viðtal
December 5, 2024

Hvatvísi Íslendinga bæði kostur og galli

TEXTI
Svetlana Graudt
Banki fyrir blanka: Skæruliða-markaðsetning í þágu öryrkja
verkefni
October 30, 2024

Banki fyrir blanka: Skæruliða-markaðsetning í þágu öryrkja

TEXTI
Ritstjórn