Herferð ræddi við Jón Kára Eldon hönnunarstjóra hjá Apparatus um hvað þarf að hafa í huga áður en farið er af stað með hugmynd að appi. Hjá Apparatus þróa þau öpp og snjallar lausnir og á dögunum hlutu þau tvenn verðlaun fyrir framleiðslu á Lyfju-appinu á Íslensku Vefverðlaununum.
„Það var virkilega gaman að sjá Lyfju appið hljóta þessar viðurkenningar – það staðfestir að við erum að gera eitthvað rétt. Í fyrra unnum við bæði stafræn lausn ársins og verkefni ársins fyrir Lyfju-appið, svo það var sérstaklega ánægjulegt að fylgja því eftir með þessum verðlaunum í ár“ segir Jón Kári.
Teymið hjá Apparatus leggja mikla áherslu á að búa til lausnir sem nýtast fólki í raun og veru og Lyfju appið er gott dæmi um það. „Appið er líka í stöðugri þróun og við höldum áfram að þróa það í takt við þarfir notenda og þjónustunnar sjálfrar“ segir Jón Kári. Lyfju-appið er hannað með það að leiðarljósi að einfalda fólki að sækja lyf, endurnýja lyfseðla, fá áminningar og sjá yfirlit yfir eigin lyfjasögu
„Við hönnuðum lausn sem væri tilbúin að þróast áfram og aðlagast síbreytilegum þörfum notenda og þjónustu Lyfju. Við lögðum einnig mikla áherslu á að appið væri bæði öruggt og auðvelt í notkun, þar sem traust og aðgengismál eru lykilatriði í heilbrigðistengdum lausnum“ segir Jón Kári.
En hvaða atriði skiptu mestu máli varðandi þróun á Lyfju-appinu?
„Við fundum strax góðan takt með teyminu hjá Lyfju og unnum út frá trausti og gagnkvæmum skilningi á markmiðum“ segir Jón Kári fyrst og fremst um samstarfið. „En það var sameiginlegt markmið um að gera flókna þjónustu einfalda og aðgengilega fyrir alla notendur, óháð aldri eða tæknikunnáttu. Við gáfum okkur mikinn tíma í smáatriðin – atriði eins og flæði, skilning á heilsutengdum aðstæðum notenda og skýrleika í samskiptum.“
Af hverju ættu fyrirtæki að gera app frekar en að láta vef duga?
„Þegar fólk þarf að komast hratt að efninu, aftur og aftur, þá getur app verið mun betri kostur en vefur. Öpp geta nýtt sér eiginleika tækisins eins t.d rafræna auðkenningu, staðsetningu, tilkynningar og þannig boðið upp á hraðari, þægilegri og persónulegri upplifun.
Ef þú ætlar að gera app, þá verður það að bæta eitthvað sem vefurinn getur ekki gert jafn vel, annars er það bara auka skref sem enginn þarf.“
Hvenær ætti fyrirtæki að gera app og hvenær ekki?
„App þarf fyrst og fremst að þjóna skýrum tilgangi fyrir notandann. Í mínum verkefnum hef ég séð skýran mun á lausnum sem eru hannaðar út frá raunverulegri þörf annars vegar og hins vegar lausnum sem eru gerðar af því „það vantar app“. Það er himinn og haf á milli. Öpp þurfa að vera notuð og skapa virði — þeim þarf að vera treyst. Öpp sem ekki uppfylla þessi skilyrði hverfa fljótt.
Það er mikilvægt að greina hvort appið geri eitthvað sem skiptir fólk máli og hafa það að leiðarljósi allan tímann. Við spyrjum nokkurra lykilspurninga: Er þetta þjónusta sem fólk notar reglulega? Skiptir hraði, einfaldleiki eða persónuleg nálgun máli? Myndi notandinn sakna appsins ef það hyrfi?
Ef það er ekki hægt að svara þessum spurningum með sannfæringu, þá er betra að sleppa því eða að minnsta kosti bíða. App er ekki bara útfærsla. Það er skuldbinding við þjónustu sem á að virka vel, alltaf.“
Er aukinn áhugi á öppum og hvernig er samtalið að breytast?
„Já, það er aukinn áhugi og fólk er farið að spyrja betri spurninga. Núna einblínir fólk á gagn appsins, frekar en til dæmis auglýsingagildi.
Mér finnst þetta samtal orðið markvissara. Þetta er ekki bara spurning hvernig hlutirnir líta út heldur meira um það hvernig þeir virka fyrir alvöru fólk í raunverulegum aðstæðum. Það er þar sem góð þjónusta byrjar.“
Hvernig geta öpp bætt þjónustu og styrkt samband við viðskiptavini?
„Þegar app virkar vel, þá hjálpar það fólki að klára hluti hraðar, halda utan um það sem skiptir máli og finna öryggi í því að hlutirnir séu á sínum stað og virki eins og skyldi. Þú finnur fyrir því þegar þjónusta er hönnuð með þarfir notandans í huga. Þá eru engar krúsídúllur, engin flækja, bara hlutir sem virka í formi góðrar notendaupplifunar.
Öppin geta líka lært á notendur.
Verið gagnvirk og birt persónusniðið efni. Þá myndast traust og virkt samband sem heldur.“
Hvað þarf að hafa í huga áður en farið er í að búa til app?
„Það allra mikilvægasta er að vita nákvæmlega af hverju þú ert að fara af stað.
Of margir byrja með lista af eiginleikum (e. features) í stað þess að spyrja: Hvaða vandamál þurfum við raunverulega að leysa? Það er alltaf betra að einblína á eitt sem skiptir máli, hanna það vel og leysa það fullkomlega, frekar en að reyna að gera allt í einu.
Þeir sem gera þetta vel byrja yfirleitt á einfaldri útgáfu. Einbeita sér að því sem skiptir mestu máli í byrjun, hlusta á notendur, og bæta svo við eftir þörfum. Það er bæði skynsamlegra og nýtist fólki miklu betur til lengri tíma.“