Til Baka
DEILDU
Markaðsfólk: Auður Karitas hjá Wise

Markaðsfólk: Auður Karitas hjá Wise

viðtal
December 3, 2024
Texti
Ritstjórn og Auður Karitas
Mynd
Aðsendar
Auður Karitas starfar hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Wise sem markaðsstjóri og fæst þar við áhugaverð verkefni á sviði B2B. Hennar helsti lærdómur er að flækja ekki hlutina um of og gerir sitt besta við að sogast ekki inn í hvirfilvind í vinnunni. Jarðtengingu og afslöppun fær hún svo í Flatey.

Auður tók við núverandi starfi í sumar, en hefur starfað hjá Wise í rétt rúmt ár. Upphaflega kom Auður inn sem svokallaður vörumarkaðsstjóri (e. product marketing manager. Nýrverið sameinaðist svo fyrirtækið Þekkingu og hefur ferlið verið að sögn Auðar afar skemmtilegt og spennandi.

Auður Karitas ásamt samstarfsfélögum hjá Wise, Ólafi Stephensen og Hákoni Davíð Halldórssyni.

Áður starfaði Auður sem vefþróunarstjóri hjá Origo og var þar hluti af markaðsteyminu. Þar á undan starfaði hún í þrettán ár hjá Vodafone (síðar Sýn) þar sem Auður að eigin sögn sleit barnsskónum.

„Á þessum tíma öðlaðist ég dýrmæta reynslu á hinum ýmsu sviðum, þar sem ég starfaði m.a. sem verkefnastjóri í sölunni og síðar í fjögur ár í mannauðsdeild þar sem ég leiddi m.a. fræðslumál fyrir nýtt starfsfólk í framlínunni. Lengst af gegndi ég starfi vefstjóra í markaðsdeild, stýrði fyrst vodafone.is og síðar bættist við syn.is og stod2.is. Ég hef því starfað í markaðs-, samskipta- og vefmálum í rúm 10 ár.“

Það var góður skóli að hafa verið í vefmálunum þar sem ég fékk að vera með annan fótinn inn í stafrænni þróun og hinn í markaðsmálunum og bý að því eftir að ég færði mig yfir í upplýsingatæknigeirann.  

 

Hefuru gert mistök í starfi sem reyndust vera góður lærdómur? Hvað fór úrskeiðis?

Ég hef lært að oft eru einföldustu útfærslurnar þær bestu og áhrifaríkustu. Það er oft hætt við því að flækjustigið taki yfir og þú endar með eitthvað geimskip í höndunum, þetta getur átt við í vöruþróun, við val á hugbúnaði eða í markaðsstarfinu.

Mér er aðferðafræði Design Thinking afar hugleikin og sótti m.a. námskeið hjá MIT Sloan til að styrkja mig í þeim fræðum, þar sem er lögð áhersla á að greina þarfir notandans áður en lausnin er smíðuð, en það er mjög algengt að byrjað sé á öfugum endanum.

Ég féll í þessa gryfju á mínum yngri starfsárum og eitt sem ég lærði fljótt var að taka einstaklingsviðtöl, framkvæma notendaprófanir og nýta kannanir sem er árangursrík leið til að öðlast dýrmæta innsýn og hefur oft á tíðum verið mikilvæg forsenda þeirra ákvarðana sem ég hef tekið. 

Hvernig er deildin þín uppsett og hlutverkin? Markaðsdeild Wise tilheyrir Sölu- og markaðssviði og störfum við þvert á fyrirtækið. Við erum þrjár í deildinni þar sem ég gegni starfi markaðsstjóra, svo er verkefnastjóri markaðsmála og stafrænn markaðssérfræðingur. Samsetningin á teyminu er góð þar sem styrkleikar okkar og reynsla dekkar ansi breitt svið.

Starfið okkar er afar fjölbreytt, við höldum til að mynda fjölmarga veffundi, námskeið og viðburði yfir árið ásamt því að taka þátt í ráðstefnum erlendis sem tengist einna helst samstarfi okkar við Microsoft.

Það er ekki einfalt að myndgera og markaðssetja flóknar tæknilausnir. Mynd: Wise

Við fáum mikið af samskiptamálum inn á okkar borð og erum í talsverðri efnisvinnslu líka. Það að starfa í upplýsingatækni þýðir að við erum að markaðssetja hugbúnaðarlausnir og þjónustur sem eru oft á tíðum flóknar - tæknilega amk.

Þá skiptir máli að geta skrifað góð vöruskilaboð þar sem reynir á að skilja þarfir markhópsins og miðla virði vörunnar með einföldum og árangursríkum hætti.

Kaupferlið tekur líka í flestum tilfellum talsvert lengri tíma en á B2C markaði og fleiri aðilar sem þurfa að koma að ákvörðuninni.

Heilt yfir þá er starf markaðsdeildar á B2B markaði ekkert svo frábrugðið starfi í B2C, það gæti komið mörgum á óvart.

 

Hvernig lítur hefðbundinn vinnudagur út hjá þér? Það tengja eflaust flestir við að sogast inn í svokallaðan hvirfilvind en ég reyni eftir fremsta megni að hafa fyrirsjáanleika í mínu starfi og innan deildarinnar. Við vinnum eftir markaðsáætlun og leggjum mikið upp úr skipulagi inn í teyminu þannig að við getum unnið verkefnin tímanlega. Skipulag og góð yfirsýn stuðlar líka að því að allir nái að halda góðu jafnvægi og gefur andrými til sköpunar.

Það er í raun enginn dagur eins en ég byrja iðulega á að skoða verkefnastöðuna fyrir daginn hjá mér og öðrum í teyminu, við eigum líka stutta stöðufundi í byrjun og lok viku til að halda fókus á því sem skiptir mestu máli.

Þetta fyrirkomulag hefur gefist mjög vel og við erum sífellt að besta vinnulagið í sameiningu. Svo er bráðnauðsynlegt að detta í að minnsta kosti eitt gott hláturskast yfir vinnudaginn.

Áttu þér fyrirmyndir í faginu eða þegar kemur að starfsferlinum, ef svo hverjar? Ég er þakklát fyrir að hafa átt mjög margar sterkar fyrirmyndir á mínum starfsferli og þegar ég lít yfir farinn veg þá er ótrúlega gaman að sjá hvað voru margar konur sem lyftu mér upp og höfðu mikil áhrif á mína starfsþróun.

Það eru nokkur nöfn sem ég gæti nefnt en ætla að nota tækifærið og gefa sérstaklega shout-out á þær Önnu Kristínu Kristjánsdóttir formann Sambands íslenskra auglýsingastofa, Báru Mjöll Þórðardóttir stjórnendaráðgjafa og Sylvíu Ólafsdóttir framkvæmdarstjóri rekstrarsviðs hjá Icelandair. Þær eru allar sterkir leiðtogar og miklir töffarar.

 

Anna Kristín, Bára Mjöll og Sylvía.

Hvernig heldur þú þér á tánum í markaðsfræðinni og hvar öðlast þú nýrrar þekkingar í faginu? Ég er rosalegur pælari og set mig oft á bólakaf ofan í hlutina þegar ég er að vinna í verkefnum, ég leita þá oftast að efni á netinu og vel vandaðar heimildir. Mér finnst mörg fyrirtæki vera með þrusugóð blogg þar sem má finna ýmislegt tengt B2B marketing, til dæmis Hubspot. Svo dett ég oft inn á greinar hjá Harvard Business Review.

Ég hef líka gaman að því að fá hugmyndir og sækja mér innblástur frá öðrum og jafnvel alveg ótengdum geirum. Einnig hef ég hef sótt fjölda námskeiða til að styrkja mig á hinum ýmsu sviðum, bæði hérlendis og erlendis.

Ein af mínum uppáhalds bókum er The Power of Habits: Why We Do What We Do in Life and Business. Ég hef sterka tilhneigingu til að spyrja „Hvers vegna?” og er óhrædd við að breyta út af vananum og prófa nýjar leiðir. 

Notar þú gervigreind í þínum daglegu störfum? Ef svo er við hvað lætur þú hana fást og hvernig hefur gervigreindin hjálpað þér síðan hún kom fram á sjónarsviðið?

Ég nota hana einna helst til að koma frá mér hugmyndum og formgera þær, svo nota ég hana einnig í að slípa til texta og leggja til úrbætur. Það er virkilega spennandi að við séum komin á þennan stað í tækninni og mörg tækifæri sem þetta opnar á.

Mér er persónulega umhugað um að tryggja að efnið sem verður til sé „ekta”.

Við lifum á tímum þar sem efni er að verða ansi keimlíkt, hvort sem um ræðir texti eða myndefni og ég held að gervigreindin gæti ýtt enn frekar undir þá þróun ef fólk er ekki nægilega meðvitað. Annars er ég mjög nýjungagjörn og sé þetta því fyrst og fremst sem jákvæða þróun. Gervigreindin hefur létt talsvert undir inn í deildinni okkar og styttir t.d. tímann sem fer í textaskrif, kynningar og hugmyndavinnu.

Hvaða tól og tæki (öpp t.d) gætir þú ekki lifað án í markaðsstarfinu? Réttu verkfærin eru lykilatriði í markaðsstarfinu, sérstaklega þar sem vinnuflæðið innan markaðsdeilda er oft frábrugðið því sem gengur og gerist innan annarra deilda. Að vera með notendavænt og öflugt verkefnastýringartól inn í markaðsdeild er lífsbjörg og hefur Asana hjálpað okkur mikið við að ná utan um vinnulífið okkar.

Miro er svo í persónulegu uppáhaldi hjá mér, hef notað það mikið fyrir wireframe í gegnum tíðina, svo gagnast það einnig vel fyrir vinnustofur, hugmyndavinnu, planning og journey mapping.

Wireframe í Miro

Hvað vildir þú óska að fólk vissi um þitt starf en hefur ekki hugmynd um? Starf markaðsstjóra er mjög strategískt, við sinnum mörgum ólíkum verkefnum, stórum sem smáum, en öll eru þau hluti af stærra samhengi. Það skiptir máli þegar unnið er eftir stefnu, að allt sem þú segir og gerir sem fyrirtæki sé hluti af stefnunni.

Það er því mikilvægt fyrir framkvæmdastjórn fyrirtækja að hafa okkur markaðsfólkið með í stefnuvinnu fyrirtækisins því hún er samofin vörumerkjastefnunni. Það mun svo koma í okkar hlut að miðla henni út á markaðinn og til starfsfólks en þar spilar innri markaðssetning lykilhlutverk. 

Ef þú myndir byrja með hlaðvarp í dag hvað myndi það heita? Ég hef ekki enn stokkið á hlaðvarpsvagninn, kannski er það vegna þess að ég er svo mikil textamanneskja. En þar sem ég er mikið að spá í stóru myndinni og brenn fyrir hönnunarhugsun þá fengi hlaðvarpið eflaust nafnið; Think Big, Design Smart.

Lesendur verða að afsaka enskuna en þetta hljómaði bara ekki eins vel á íslensku...

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

W til Íslands - opnar á tækifæri erlendis
frétt
October 2, 2024

W til Íslands - opnar á tækifæri erlendis

TEXTI
Instrument
Rannsókn: Óvæntir vinir vænlegir til vinnings
spegill
November 4, 2024

Rannsókn: Óvæntir vinir vænlegir til vinnings

TEXTI
Ritstjórn
Að setja bjór á markað er ekkert grín - en hvað ef það er list?
viðtal
October 14, 2024

Að setja bjór á markað er ekkert grín - en hvað ef það er list?

TEXTI
Ritstjórn