Í flokknum Firmamerki hlaut nýtt merki Frumtaks gullverðlaun, en merkið var hannað af Snorra Eldjárn Snorrasyni, Viktor Weisshappel Vilhjálmssyni og Jakobi Hermannssyni frá Strik Studio.
Umsögn dómnefndar:
„Gott jafnvægi milli merki og leturs. Myndmerkið kallast á við form í letrinu á snjallan hátt. Merkið í heild endurspeglar nýtt upphaf og ferska nálgun. Nær inntaki fyrirtækisins vel með einfaldri en áhrifaríkri lausn.“
Herferð ræddi við hönnuði merkisins á dögunum og um upphaf verkefnisins segir Snorri „þegar við byrjuðum að skoða merkið sáum við að það náði ekki að endurspegla nógu vel Frumtak og það sem sjóðurinn stendur fyrir. Því var ákveðið að útbúa nýtt merki í stað þess að hreinteikna hið gamla.” Um merkið og hönnunarferli þess má lesa hér.
Sigurður Oddsson (Aton) hlaut síðan silfurverðlaun fyrir merkið Lýðveldið Ísland 80 ára fyrir forsætisráðuneytið. Við rýnum hér eftir í innblástur merkisins, togstreituna í hönnunarferlinu og hversu mikilvægt það er að eiga sterk tól eins og letur, merki, form og liti.
Umsögn dómnefndar:
“Fallegt og grípandi merki sem endurspeglar sögu lýðveldisins en tekst að ljá því númtímalegri blæ á smekklegan hátt.“
„Það er ekki á hverjum degi sem maður er beðinn um að gera afmælismerki fyrir lýðveldi landsins og þetta verkefni var óvenjulegt að því leytinu til að vera fyrst og fremst bundið þessum tímamótum. Sem hluti af afmælishátíðinni var gefin út bók sem hét Fjallkonan, sem var gjöf til landsmanna og dreift um allt land. Fjallkonan var því útgangspunkturinn að hugmyndavinnunni að baki merkinu. Myndefni sem tekið var saman í bókinni um hana var skoðað og velt upp hvaða tilvísanir í hana væru nógu sterkar til að nota í merki“ útskýrir Sigurður.
Hvernig hófst þú vinnuna við að þróa merkið áfram?
Snemma ákvað ég í samráði við Forsætisráðuneytið að það að myndgera sjálfa Fjallkonuna í merkinu væri of augljóst og leitaði því að smáatriðum í kringum hana þar sem hún hefur birst í gegnum tíðina. Fjallkonan er sameiginlegt íkon sem á systur víða um lönd í gegnum söguna, en okkar Fjallkona er nátengd skautbúningnum sem konur landsins hafa nostrað við gegnum aldirnar og þar fannst mér skemmtilegt að byrja.
Hvaðan kemur innblásturinn fyrir merkið?
Í bókinni sem gefin var út má finna teikningar að útsaumi fyrir skautbúninginn eftir Sigurð Guðmundsson málara, á 19. öld. Þar fannst mér einhver sérstaklega áhugaverður einfaldleiki og sérstaða í flúruðum blómamynstursteikningunum sem mér fannst ég verða að koma inn í merkið.
Þaðan var sjóndeildarhringurinn víkkaður, teikningar og skrautmynstur Sölva Helgasonar og William Morris rannsökuð, og skoðuð nútímamerki sem taka mið af mynstri sem hefur þetta flækjustig.
Að lokum var haft í huga að merkið þarf að virka sem slíkt og því eru takmörk fyrir smáatriðum þannig að það gangi.
Hvað var mikilvægt að kæmi fram í lokaútkomu merkisins?
Mér fannst mikilvægt að handverk og saga kæmu fram í merkinu, og fannst það mega vera aðeins flóknari en flest merki sem eru gerð nú til dags vegna þessa. Vísunin í fjallkonuna og skautbúninginn eru ekki augljósar út frá merkinu og þurftu í raun ekki að vera það, en sem hluti af hátíðinni og þessum tímamótum sem áttu að upphefja konur á Íslandi síðustu aldirnar fannst mér þetta viðeigandi.
Hvað veldur að merkið Lýðveldið Ísland 80 ára sé vel heppnað að þínu mati?
Merkið er óvenjulegt í flækjustigi sínu, sérstaklega fyrir mig sjálfan sem hönnuð og það var togstreita sem ég fann fyrir við sjálfan mig, en það er kannski einmitt það sem gerir það vel heppnað, eða ég vona það að minnsta kosti.
Hvað skiptir mestu máli þegar unnið er að heildstæðri ásýnd fyrir fyrirtæki?
Að búa til sterk tól sem geta verið letur, myndskreytingar, merki, form og litir, og síðan nota þau af staðfestu (e. consistency) til langs tíma. Staðfestan er lykilatriðið, en það mun enginn nenna að nota eitthvað lengi nema það sé sterkt, fallegt, ekta og eigi hljómgrunn í kúltúr.
Er eitthvað sem þú myndir vilja árétta í tengslum við hugmyndir fólks um hönnun firmamerkja?
Það eru nokkur hugtök sem mér finnst fólk vera svolítið upptekið af varðandi merki og ásýnd á heildina. Orðið „stílhreint“ fer sérstaklega í taugarnar á mér. Stíl-hreint, hreint af stíl. Stíl-laust? Sérkenni og þekkjanleiki er það mikilvægasta við merki, eins og önnur brand element, og því ætti það; að vera hreint af stíl, hreint af einhverju sérstöku ekki að vera markmiðið. Þetta tengist alþjóðlegri bylgju ofeinföldunar sem hefur verið kölluð „blanding“ síðan 2017, en hófst mun fyrr. Sá pendúll er sem betur fer að byrja að sveiflast til baka og vörumerki um allan heim eru byrjuð að bæta upp karakter sem þau misstu, sækja lengra í fortíðina í einhvern ekta kjarna eða endurskilgreina sig fyrir nýja framtíð.
Hvernig tengist hönnun ásýndar fyrirtækis ímynd þess og trúverðugleika á markaði?
Vörumerki eru fyrst og fremst aðgreining. Ástæða til að velja eitt umfram annað, þegar litið er framhjá verði eða praktískum eiginleikum. Þegar samkeppni er mikil á markaði er brandið þeirra sterkasta tæki. Því er hönnun á sterkri ásýnd mikilvæg fjárfesting til að fyrirtæki geti byggt upp trúverðugleika og þekkjanleika. Þá hefur verið sýnt fram á að fyrirtæki sem hafa sterk vörumerki,
sterk brönd eru í mun betri stöðu til að takast á við áföll og krísur þegar þær óhjákvæmilega koma upp.
Hvernig getur góður grunnur að mörkun haft áhrif á áframhaldandi markaðssetningu fyrirtækis?
Mörkun er ekki eitthvað sem fyrirtæki gerir bara einu sinni og lætur þar við sitja. Í dag er það sérstaklega áberandi hversu snögg fyrirtæki þurfa að geta þróað tólin sín áfram til að aðlagast nýrri tækni, breyttum miðlunarleiðum og nýjum kröfum og væntingum almennings. Mörkun og hönnun ásýndar fyrirtækja ætti því að vera í stöðugri þróun, en þó alltaf unnið út frá kjarna sem er staðfastur, byggður á hugmynd sem hægt er að nota sem útgangspunkt fyrir allt.
Ég gæti fundið til ótal dæmi um vel heppnuð einkenni sem eru stöðugt í þróun en byggja á traustum grunni. Fyrsta sem mér dettur í hug er Heinz, því það var að koma enn ein geggjuð birtingarmynd af því hversu sterk element þau eiga. Á dögunum birtu þau stóra skiltaherferð án logo, bara með macro-nærmyndir af klassísku vörunum þeirra, tómatsósu og baked beans. Ofan á myndirnar eru síðan einfaldar textalínur í einkennandi letri Heinz, sem er sama letur og er notað í merkinu og flest þekkja án þess að vera meðvituð um það. Þessi einfaldleiki og þekkjanleiki hefði ekki verið mögulegur nema vegna þess að fyrirtækið hefur unnið með sömu leturgerð mjög lengi í öllum sínum birtingarmyndum og þau eiga það letur ein.
Nærtækara dæmi og sígilt hérlendis finnst mér vera 66°Norður. Þau hafa staðfastlega notað myndefni af íslendingum í vondu veðri, með svipbrigði eftir því og kaldhæðið copy ofan á síðan ég man eftir mér og það virkar enn. Hvers vegna? Því þau fundu þessa sérstöðu; að tala um veðrið og hvernig það er að búa á þessu landi - í alvörunni, og héldu sig við það. Allir hinir hafa bara verið að elta þau síðan. Snilld.
_
Þessi grein er líður í röð viðtala við hönnuði og verðlaunahafa út FÍT keppninni 2025. Fyrri grein má lesa hér.