Fyrirtæki eyða miklum tíma og fjármagni í að búa til eftirminnilegar auglýsingar, með áhorfendatölur sem nema 130 milljónum að viðbættum öllum þeim milljónum sem leita uppi auglýsingarnar dagana eftir viðburðinn. Tryggir þetta mikla áhorf gríðarlega útbreiðslu.
Þrátt fyrir að auglýsingapláss í Ofurskálinni leiði ekki endilega til beinnar sölu sýna rannsóknir að þær geta aukið vörumerkjavitund og jákvætt viðhorf neytenda. Fyrirtæki geta séð allt að 16% aukningu í umtali (e. word-of-mouth) í mánuð eftir viðburðinn og allt að 22% í vikunni eftir. Netumræða eykst enn meira, eða um 68% á keppnisdeginum. Í ljósi mikillar samkeppni þurfa fyrirtæki að tryggja að auglýsingar þeirra skeri sig úr. Oft eru frægar stjörnur nýttar til að auka deilanleika og umræðu á samfélagsmiðlum.
Uber Eats vakti mikla athygli í ár með stjörnuprýddri herferð sem náði yfir allt fótboltatímabilið með sérhönnuðu
efni fyrir bæði sjónvarp og samfélagsmiðla.
Samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt landslagi Ofurskálaauglýsinga og leitt til þess að nauðsynlegt er fyrir vörumerki að þróa heildstæðar markaðsherferðir sem ná langt út fyrir hefðbundinn útsendingartíma. Myllumerkið #SuperBowlLVII hefur náð hundruðum milljóna áhorfa á TikTok, og 78% áhorfenda nota samfélagsmiðla til að ræða auglýsingarnar í rauntíma. Að auki sýna rannsóknir að ,,brand interaction” eykst um 351% á meðan á viðburðinum stendur. Samfélagsmiðlar hafa vissulega stækkað áhrifasvið Ofurskálarauglýsinga og bjóða upp á aukin tækifæri fyrir vörumerki, en þeir hafa ekki leyst sjónvarpið af hólmi. Þeir virka sem framlenging á sjónvarpsauglýsingunni og magna áhrif hennar.
Í framtíðinni gæti gervigreind gert sjónvarpsauglýsingar persónulegri, og ný tækni eins og AR og VR gæti gert þær gagnvirkari. En burðarásinn í Ofurskálarherferðum verður áfram sjónvarpið. Bandarísku forsetakosningarnar undirstrika einnig áhrifamátt miðilsins; þar fer enn helmingur auglýsingafjár í sjónvarp, því þegar kemur að því að tala beint til fólks, stendur sjónvarpið enn uppi sem einn áhrifamesti miðillinn.
Þrátt fyrir breyttar neysluvenjur og aukna samkeppni frá stafrænum miðlum sanna Ofurskálaauglýsingar að sjónvarp er enn eitt öflugasta tækið til að skapa sterka vitund og dýrmæt tengsl við neytendur.