Mynd- og textaefni sem framleitt er af gervigreind er nánast allstaðar um þessar mundir, enda bætist tæknin til mun í hvert skipti sem ný uppfærsla er gefin út.
Nú getur verið erfitt að sjá muninn á raunverulegu myndefni og því sem algrímið hefur soðið saman - nokkuð sem margir eru uggandi yfir, þar á meðal Icelandair.
Flugfélagið hefur því sett af stað herferð þar sem talað er til bæði ferðalanga en einnig gervigreindarfyrirtækjanna sem þróa tæknina - með von um breytingar.
Þar biður flugfélagið gervigreindina kurteisislega um að hætta að framleiða gervimyndefni af Íslandi því ekkert muni nokkurntímann geta komið í staðinn fyrir þá stórbrotnu fegurð sem íslensk náttúra státar af.
Þess í stað stingur Icelandair upp á að gervigreindin sendi fólk frekar bara til Íslands til þess að geta upplifað land og þjóð - þau muni ekki trúa sínum eigin augum.
Undir má sjá brot út yfirlýsingu sem Icelandair beinir til allra ferðalanga
Við hjá Icelandair notum ekki gervigreindarframleiddar myndir til að sýna Ísland. Af hverju? Vegna þess að við þurfum þess ekki. Ísland kann að líta óraunverulegt út - en það er það ekki. Því lofum við.
Línan á milli þess sem er raunverulegt og óraunverulegt er orðin óskýr*. Já, það er auðvelt að sjá að myndir af einhyrningaköttum á jetskíum yfir regnboga eru falskar. En þegar þú horfir á myndir af stórbrotnu landslagi, ægifögru himinhvolfi og djúbláu vatni, er auðvelt að spyrja sig að spurningunni: „er þetta raunverulegt?“
Í tilfelli Íslands er svarið já.
Ísland er staður sem tekur frammúr villtustu gervigreindarfyrirmælum, þar sem þú getur átt raunverulega óraunverulega upplifun. Það er staður þar sem þú getur fundið fyrir ljóma miðnætursólarinnar, heyrt í dynkjum jöklanna og orðið vitni að því þegar norðurljósin lýsa upp himininn.
Hvort gervigreindin sjái sóma sinn í að hætta að framleiða gervimyndefni af Íslandi er óvíst, en hugsunin á bakvið herferðina er hinsvegar eitthvað sem gæti náð til ferðamanna og þörfina til að upplifa eitthvað sérstakt.
Hið raunverulega trompar alltaf.