Að þessu sinni hlaut Síminn Áruna fyrir IceGuys og fjölbreyttar markaðsaðgerðir í tengslum við vinsælu sjónvarpsþættina. Dómnefnd fór yfir allar tilnefningar og lagði mat á lykilþætti eins og stefnumótun, markaðsrannsóknir, birtingaáætlanir, sköpunargleði og viðskiptastjórnun. Jafnframt þurfti að sýna fram á raunverulegan árangur herferðarinnar með skýrum rökstuðningi.
Birkir Ágústsson, framkvæmdastjóri Miðla hjá Símanum situr hér fyrir svörum og vill jafnframt hvetja önnur fyrirtæki til að taka meiri áhættu í markaðssetningu. Það hefur heldur betur skilað Símanum framúrkarandi árangri eftir að þau fóru ótroðnar slóðir og komu hugmyndinni um IceGuys á koppinn.
Hvernig varð hugmyndin að IceGuys til og hvernig gekk að fylgja henni eftir alla leið að framkvæmd?
Hugmyndin að IceGuys kom upphaflega frá Jóni Jónssyni og Hannesi Þór Halldórssyni en hún snerist um að skapa sjónvarpsþáttaröð um strákaband skipað þekktum íslenskum tónlistarmönnum og fyrrverandi fótboltamanni. Með réttri nálgun gæti þessi hugmynd náð til unga fólksins. Það þurfti mikla sannfæringu til að fá samþykki æðstu stjórnenda Símans sem loks veittu samþykki þar sem hugmyndin væri áhættunnar virði.
Var hugmyndin að IceGuys fullmótuð í upphafi eða þróaðist hún áfram og tók breytingum?
Hugmyndin var ekki fullmótuð í upphafi heldur þróaðist hún mikið í framkvæmdinni. Hún byrjaði sem einföld hugmynd um hljómsveit en þróaðist í umfangsmikla markaðsherferð, sjónvarpsþáttaraðir og tónlistarviðburði. IceGuys urðu að eiginlegu menningarfyrirbæri þar sem tónlist, sjónvarp, viðburðir og samfélagsmiðlar runnu saman í eitt.
Þið hafið nefnt fullkomna tímasetningu fyrir þetta verkefni, hver er hún?
Fullkomin tímasetning fólst í því að eftir umfangsmikla stefnuvinnu kom í ljós Síminn þurfti að sækja á yngri markhópa. Þetta er hópur sem markaðsfólk hefur átt erfitt með að ná til í mörg ár.
En hver var í raun og veru hugmyndin og hvert var markmiðið með henni?
Raunveruleg hugmynd var að ná til yngri kynslóða, yngja upp í viðskiptavinahópi Símans og styrkja stöðu vörumerkisins. Markmiðið var einnig að sýna fram á að Síminn skilji þarfir unga fólksins og geti boðið upp á ferskt og spennandi íslenskt efni sem standist samkeppni við erlendar streymisveitur og samfélagsmiðla.
Hvað hefur teymið lært á þessari vegferð og hvað hefur helst komið ykkur á óvart?
Stóri lærdómurinn í þessu öllu saman er hvað galin verkefni geta borgað sig á svo marga vegu. Hvernig áhættan getur skilað sér í sterkara vörumerki, auknum tekjum, og í okkar tilfelli, auknu áhorfi.
IceGuys urðu gríðarlega vinsælir, komu vinsældirnar ykkur að óvörum?
Það kom ekki á óvart að IceGuys urðu vinsæl þáttaröð en samfélagslegu áhrifin fóru fram úr björtustu vonum. Þáttaröðin sló áhorfsmet Venjulegs fólks um 63%, sem var þá vinsælasta þáttaröð Símans frá upphafi. IceGuys náði gríðarlegu umtali í fjölmiðlum og varð eiginlegt menningarfyrirbæri sem var meira en nokkur hafði reiknað með.
Hvernig heldur maður áfram með svona stórt og vinsælt konsept og hvert er lykilatriðið á að missa ekki niður vinsældirnar?
Lykilatriðið er að halda áfram að endurnýja efnið og koma með nýjar hugmyndir reglulega til að viðhalda áhuga. Nýtt efni, ný tónlist og óvæntir viðburðir sem halda spennunni og eftirvæntingunni gangandi er mikilvægt atriði.
Mættu fleiri fyrirtæki á Íslandi vera djarfari í að kýla á klikkaðar hugmyndir og fara ótroðnar slóðir í markaðssetningu?
Önnur íslensk fyrirtæki mættu hiklaust taka meiri áhættu með nýjar hugmyndir, sér í lagi til að ná betur til yngri kynslóða og aðgreina sig frá alþjóðlegri samkeppni. Að taka enga áhættu er áhætta út af fyrir sig.
Hvernig nýttuð þið ykkur IceGuys í markaðssetningunni?
IceGuys var nýtt sem miðpunktur markaðssetningar; þættirnir sjálfir voru auglýsing fyrir Símann og efni framleitt fyrir samfélagsmiðla, auglýsingar, varning og viðburði skapaði heildstæða og sterka ímynd. IceGuys vörumerkið styrkti ímynd Símans og hjálpaði við að ná til yngri markhópa með því að skapa samstöðu í kringum jákvæða upplifun á efni og viðburðum.
Tók markaðssetning Símans og tilheyrandi deild stakkaskiptum eftir að hugmyndin sló í gegn?
Það voru ekki beint stakkaskipti á markaðssetningu Símans en það sem er öðruvísi í þessu verkefni er samstarf Símans, IceGuys og Atlavíkur en það hefur verið ótrúlega gaman að taka þátt í að skapa þennan heim sjónvarps, tónlistar og viðburða. Þetta mikla og vel samstillta samstarf er helsta breytingin á markaðsstarfinu okkar
Hverju hefur þessi herferð skilað til Símans og hvernig stóðst hún væntingar ykkar?
Herferðin skilaði frábærum árangri; viðskiptavinum fjölgaði mun meira en áætlað var, ímynd og sérstaða Símans styrktist verulega og arðsemin af markaðsfjárfestingunni (ROMI) var einstaklega góð (131:1). IceGuys fóru langt fram úr væntingum og hafa skilað mikilli virðisaukningu fyrir Símann.
Frést hefur af nýrri þáttaröð, getur þú gefið okkur smá leyndarmál?
Í nýju þáttaröðinni mun þekkt leikarapar, Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir koma inn í söguna með stór hlutverk og munu þau setja skemmtilegan og óvæntan vinkil á IceGuys heiminn.