Um þessar mundir hafa fjölmargar stjörnur einnig sést íklæddar litríkri hönnun Hildar og deila myndum af sér í þeim með milljónum fylgjenda um allan heim. Til að setja slíkt í samhengi mætti líkja því við að íslenskt íþróttalið myndi vinna afgerandi sigur á stórmóti. Enda segja Hildur og teymið hennar gjarnan í hálfgríni að „nú höfum við gert gott mót“ þegar vel gengur.
Hildur er auðmjúk þegar hún fer yfir ferilinn sem fatahönnuður - nokkuð sem þótti lengi vel ógerlegt að hafa að atvinnu á litla Íslandi. „Þetta er fyrst og fremst allt saman rosalega mikil vinna“ segir Hildur og viðurkennir að hvort sem að það sé að stofna merkið, opna Yeoman verslunina, selja flíkurnar í verslunum erlendis eða koma sér á kortið hjá stjörnunum þá snúist þetta aðallega um að leggja mikið á sig.
Hvað varðar að koma sér á framfæri erlendis og tengjast stílistum stjarnana snúist það um að skapa tengsl fyrst og fremst en ekki síður að
...vera með kýrskýra sýn fyrir merkið, þekkja kúnnahópinn og passa vel upp á birtingarmynd vörumerkisins; allt sem kallast á við grunnreglur markaðsfræðinnar.
„Við temjum okkur líka að segja oftar nei en já, og velja vel hverja við klæðum“ segir Hildur en það minnir á hve mikilvægt samhengi er fyrir velheppnaða markaðssetningu. Að flíkurnar birtist á réttum einstakling skiptir sköpum til að ná réttri staðsetningu (e. positioning) - enda eru þau sem klæðast flíkunum á ákveðinn hátt framlenging af merkinu sjálfu.
Lykillinn að farsælli markaðssetningu er ekki síður að skilja hvernig viðskiptavinurinn hugsar, hvaða þarfir eru til staðar en sömuleiðis skilja hvar takmörkin liggja. Hildur nefnir að það sé jafn mikilvægt að skilja kúnnahópinn og það er að ögra honum aðeins til að knýja fram breytingar og þróun. Það hafi tekið langan tíma að fá íslenskar konur til að prufa sig áfram með kjólana hennar enda létu þær gjarnan stærðina stöðva sig. Í dag hefur mikið vatn runnið til sjávar og þora íslenskar konur almennt mun meira að vera í litríkum spennandi flíkum.
Að knýja fram svo stórar breytingar hjá vanaföstum neytendahóp verður að teljast sem markaðslegt grettistak.
„Ég var svo oft að reyna fá þær til að prufa eitthvað annað, fara í öðruvísi snið eða liti.“ Yfirleitt var svarið að þeim þótti svoleiðis föt vera einungis fyrir yngri og sér í lagi grennri konur, „sem er svo fyndið því ég stóð þarnar fyrir framan þær í þessum sömu fötum, og ég er bara nákvæmlega eins vaxin og þær“
Talið berst aftur að Hollywood-stjörnunum sem sjást klæðast hönnun Hildar, en slíkt gerist svo sannarlega ekki að sjálfu sér. Stílistar vestanhafs eru ráðandi markaðsöfl sem spila stórt hlutverk í að koma hönnuðum eins og Hildi á kortið, en þrátt fyrir gríðarleg verðmæti í slíkum samböndum er Hildur með stranga reglu um að greiða aldrei fyrir slíkt, og treystir þess í stað á verðmæt tengsl við stílistanna sem sjá vægi í að velja hönnun Hildar.
„Við borgum aldrei neinum fyrir að klæðast Hildi Yeoman“ segir Hildur sem er þess í stað með með umboðsmann í London sem ýmist sendir flíkurnar til stílista um allan heim eða stílistarnir sjálfir eru einfaldlega í beinu sambandi við Hildi. Yfirleitt eru það svo stjörnurnar sjálfar sem hafa lokaorðið um í hverju þær klæðast og virðist hönnun Hildar hitta í mark hjá mörgum þeirra. Yfirleitt fær Hildur þó ekki að vita fyrirfram ef ákveðin stjarna velur hönnunina hennar. „Nei oftast þá sjáum við það bara á Instagram á sama tíma og allir aðrir“ segir hún og hlær, „þetta er allt svo mikið happaglapp og algjört bingó!“
Stjörnur á borð við ofurfyrirsæturnar Jordan Dunn og Ashley Graham, söngkona ástkæra Kylie Minogue, Chicken Shop Date þáttastjórnandinn Ameliadimz, íslenska ofurstirnið Laufey og margar fleiri hafa sést skarta hönnun Hildar.
Það hafi þó snert sérstakar taugar þegar ofurfyrirsætan Ashley Graham byrjaði að klæðast hönnun Hildar og deilir mydm af sér í hönnun Hildar reglulega með 21,4 milljónum fylgjenda sinna á Instagram. Það sé stærri dreifing en nokkuð auglýsingapláss getur boðið upp á, og er Hildur að vonum ánægð með velgengnina hjá stjörnunum.
„Það var alveg extra gaman að sjá Ashley Graham í minni hönnun, líka því hún telst til plus-size.“ Alveg frá upphafi hefur Hildur að eigin sögn kappkostað við að hafa stærri stærðarskala og að heimsfræg fyrirsæta í stærri stærð sé nú reglulega í klæðnaði Hildar spili stórt hlutverk í að fá markhópinn til að sleppa tökunum á útlitsstöðlum og njóta þess að taka þátt í tískunni.