Einhverjir ráku upp stór augu í morgunumferðinni fyrir stuttu yfir umhverfisskiltum Orkusölunnar. Tilefnið var stuðvika fyrirtækisins en krúnudjásnið í þeirri viku var svokallaður „Stuðkveðjudagur“ þar sem almenningi var gefið dagskrárvald yfir skiltunum. Hægt var að senda inn kveðjur endurgjaldslaust á orkusalan.is óháð viðskiptum við fyrirtækið.
„Við runnum svolítið blint í sjóinn með þetta“ segir Helga Beck markaðsstjóri Orkusölunnar, hlæjandi og bætir við að flestar kveðjurnar bárust á stuðdaginn sjálfan. „Þess vegna varð maður að halda í vonina að fólk myndi taka þátt í þessu með okkur alveg fram á síðustu stundu. En blessunarlega fór þetta langt fram úr okkar vonum.“
Raunar bárust svo margar kveðjur að lengja varð tímabilið sem hægt var að senda inn kveðjur þar sem allt var enn á fullu þegar loka átti. Kveðjurnar voru birtar óritskoðaðar á umhverfisskiltum og strætóskýlum um allt höfuðborgarsvæði auk þess að birtast í Borgarnesi, Reykjanesbæ, Selfossi og Hveragerði.
„Það kom ánægjulega á óvart að internettröllin sváfu þennan dag en langsamlega flestar kveðjurnar voru nothæfar“ segir Helga. Hún nefnir að þau hafi hvatt fólk til að senda inn bæði persónumiðaðar kveðjur en líka almennt stuð til vegfarenda og því fengu þau góða blöndu af hvoru tveggja.
Hugmyndin að herferðinni er sprottin upp úr hugtakinu „sameiginleg sköpun vörumerkjavirðis“ (e. co-creation of brand value) þar sem virði vörumerkis er skapað í samtali við viðskiptavini.
„Við vildum biðja þjóðina að skilgreina með okkur hvað stuð væri, en við færum einmitt þjóðinni auðvitað bókstaflegt stuð inn á heimilin í formi rafmagns“ bætir Helga við.
Orkusalan hefur lengst af aðgreint sig með því að vera í stuði.
Síðasta herferð snéri að orkuleiðum Orkusölunnar undir yfirskriftinni Í hvað fer þín Orka? Helga lýsir því hvernig þeim fannst þetta vera gott framhald: „að fá fólk til að nýta þessa orku í að skapa stemningu og stuð með okkur.“
Þessa vikuna var stuðið fléttað inn í samtal við alla hagaðila fyrirtækisins en styrkjaúthlutun fyrirtækisins átti sér stað í upphafi vikunnar þar sem meðal annars voru fimm hjartastuðtækjum útdeilt á valda staði. „Við bókstaflega vildum gefa þjóðinni stuð“ segir Helga.
Stuðvikan var líka haldin hátíðleg innanhúss en þar var leitast eftir að halda uppi stuði og hrósmenningu með daglegum viðburðum til að brydda upp á tilveruna. „Á fimmtudeginum var svo hin árlega hátíðarsýning Orkusölunnar í Borgarleikhúsinu þar sem fyrirtækjaviðskiptavinum var boðið að vera í stuði með okkur á frábæru sýningunni Þetta er Laddi“ segir Helga.
En aftur að stuðkveðjunum, það hljóta einhverjar kveðjur að hafa staðið upp úr frá deginum og segir Helga að það hafi verið fallegar sögur sem spruttu upp úr þessu uppátæki Orkusölunnar.
„Til dæmis nýttu foreldrar í Hafnarfirði tilefnið til að tilkynna nafn á nýfæddri dóttur sinni. Það mun seint gleymast!“
„Svo fengum við tilkynningu um að í einum barnaskóla biðu 6 ára drengir úti í glugga eftir að sjá kveðju frá kennurum sínum á útiskilti hinu megin við götuna og vorum við þannig óbeint að hjálpa til við lestrarkennslu.
Í báðum þessum tilvikum var gaman að geta nýtt tæknina hjá Púls Media og sett yfirtöku á valin skilti svo hægt væri að koma kveðjunni til skila. Það voru síðan fleiri bekkir sem sendu inn kveðjur og var þetta virkilega skemmtilegt!“ segir Helga glaðlega.
Árangurinn af þessari herferð skilaði sér meðal annars í 127% aukningu í heimsóknum á heimasíðu Orkusölunnar og þar af 165% fjölgun nýrra notenda.
„Þetta skiptir okkur afar miklu máli þar sem við störfum á markaði þar sem vörumerkjavitund mætti vera meiri“
Smellihlutfall vefauglýsinga sem auglýstu herferðina var einnig gott en notast var við beta-testanir til að meta hvaða tegund skilaboða væri að skila mestum smellum. „Það er fyndið að segja frá því að kveðjan Stuðkveðja frá Tene frá ömmu og afa skilaði flestum smellum, ég held því að Tene-æðið sé ekkert á undanhaldi“ segir Helga.
Helga heldur áfram og segir að þau hjá Orkusölunni stefni ótrauð áfram í að koma Íslandi í stuð. „Framundan er tímabil þar sem margir eru að huga að heimahleðslu þar sem frost fer úr jörðu og hægt er að sinna jarðvinnu tengt stöðvunum. Við erum því að fara kynna enn betur okkar hleðslulausnir eða Hleðslustuð eins og við köllum það. Svo er fólk að nýta sér Stoppustuð hraðhleðslustöðvarnar okkar á ferðalögum þannig að það er af nægu að taka“ segir Helga að lokum.