Ýmsir hafa viðrað áhyggjur af stöðu íslenskunnar meðal ungs fólks og þá sérstaklega með tilliti til aukinnar notkunar samfélagsmiðla.
Menningar- og viðskiptaráðuneytið lagði því af stað með verkefni til þess að auka veg íslenskunnar á þessum vettvangi og leitaði til auglýsingastofunnar Cirkus til að móta „efniskeppni“ fyrir nemendur á framhaldsskólaaldri, vinna kynningarefni fyrir keppnina, keyra herferð og „skrásetja“ keppnina.
Markmið keppninnar var að til yrði „sem mest af góðu og skemmtilegu efni á íslensku með möguleika á útbreiðslu á samfélagsmiðlum“ og að virkja sem flesta til þátttöku.
Markhópar voru ungt fólk á framhaldsskólaaldri, sem og aðrir íslenskumælandi á samfélagsmiðlum, þ.m.t. yngri hópar sem þó hafa aldur til að nota samfélagsmiðla.
Þar sem megintilgangur keppninnar var að hvetja ungmenni til að vanda málið í daglegu tali og á samfélagsmiðlum, þá lá beinast við að keppnin bæri nafnið VANDA MÁLIÐ.
Í kynningarskyni var ákveðið að stofna „Vandamálaráðuneytið“, sem var í forsvari fyrir keppnina frá upphafi til enda. Var það skipað tveimur þekktum áhrifavöldum sem þekktir eru fyrir frjálslega notkun sína á enskuslettum, en það voru þau Sunneva Einarsdóttir og Patrekur Jaime.
Framleitt var kynningarmyndband, til birtingar á samfélagsmiðlum, þar sem reglur keppninnar voru útlistaðar auk vinninga og Vandamálaráðuneytið kynnt til leiks.
Í myndbandinu lofuðu „ráðherrarnir“ því að vanda mál sitt, en þó var þess sérstaklega gætt að tónn herferðarinnar yrði ekki yfirlætislegur og útilokandi, heldur hvetjandi og frjálslegur.
Í kjölfar birtingar myndbandsins voru bréf send til fulltrúa grunnskóla, framhaldsskóla og félagsmiðstöðva með ósk um að þeir ræddu keppnina við ungmenni og hvettu þau til þátttöku.
Áhugi á keppninni fór fram úr bjartsýnustu vonum ráðuneytisins og fékk kynningarmyndbandið yfir 80 þúsund spilanir samanlagt á samfélagsmiðlum, þ.e. Instagram, Facebook og TikTok.
Vefsvæði Vandamálaráðuneytisins, vandamalid.is, fékk um 7.400 heimsóknir á tímabilinu en innsendingar í keppnina voru alls 161.
Sigurvegari í keppninni var Viðar Már Friðjónsson, en hann endurgerði kvikmyndasenu úr myndinni Dune: Part Two einn síns liðs og hlaut fyrir það 300.000 króna peningaverðlaun. Að auki voru veittir aukavinningar fyrir innsendingar í næstu sætum.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Cirkus og ráðuneytisins hefur literally ekki eitt einasta íslenskt ungmenni slett á ensku síðan keppninni lauk.
„Það er nákvæmlega þessi framkvæmdagleði og útsjónarsemi sem kemur ungu fólki áfram og lætur drauma rætast,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra í tilkynningu. „Viðar Már er frábær innblástur fyrir okkur öll og pakkar uppáhaldskvikmyndaatriðinu sínu inn í íslenska umgjörð, bæði með orðum og umhverfi. Ég efast ekki um að hann sé rétt að byrja sína vegferð í kvikmyndagerð og fagna því að hún sé á íslensku.“