Til Baka
DEILDU
Elísabet Gunnars — Markaðsmál í tískuheiminum

Elísabet Gunnars — Markaðsmál í tískuheiminum

spegill
October 1, 2024
Texti
Ritstjórn
Mynd
Saga Sig og aðsent
Hlaðvarpið „Morgunbollinn með Elísabetu Gunnars“ hóf göngu sína fyrir stuttu en því stýrir tískufrömuðurinn og athafnakonan Elísabet Gunnarsdóttir, oft kennd  við tísku-og lífstílsbloggið Trendnet.

Hlaðvarpið er að sögn Elísabetar ákveðin framlenging á blogginu sem hún hélt úti í yfir áratug en lokaði fyrir um ári síðan. Hún hafi sjálf saknað þess að blogga en gjarnan viljað prufa eitthvað nýtt. Það hafi fljótlega runnið upp fyrir henni að það hallaði aldeilis á hlut kvenna í íslenskum hlaðvörpum og úr varð Morgunbollinn með Elísabet Gunnars. Þar ræðir Elísabet við konur sem eru að gera áhugaverða hluti og veitir þeim vettvang til segja sínar sögur.

Markaðsmál og tíska eru oftar en ekki samofin, en hvernig eru stóru tískuhúsin að tækla markaðsmálin? Herferðin fékk Elísabetu til að deila sínum hugleiðingum um hvernig helstu tískuhúsin markaðssetja sig þessa dagana.

mynd: Instagram/Jacquemus

Risatöskur á fleygiferð

„Markaðsmál í tískuheiminum hafa breyst gríðarlega mikið á síðustu árum. Hér áður fyrr voru þau bundin við að auglýsa nær einungis í tískutímaritum“ segir Elísabet en hún fylgist allra jafna með markaðsherferðum tískumerkjanna sem skera sig út. Að hennar sögn séu tískuhúsin þó eru farin að slaka á þessum kröfum og velja aðrar og öðruvísi leiðir. Elísabet nefnir sem dæmi franska merkið Jacquemus sem hefur sem hefur að hennar sögn gert virkilega spennandi hluti á samfélagsmiðlum og náð þannig að skapa heillandi heim.

 

Margir kannast eflaust við samfélagsmiðlaherferðina þar sem risastórar Jacquemus töskur sástu rúlla um á götum Parísarborgar.

Það kom reyndar í ljós seinna að myndböndin voru tölvugerð en eins og Elísabet bendir á náðu Jacquemus að halda klassa en samtímis koma fyrir sem leikandi vörumerki með skemmtilega og frumlega hugsun.

Mikið fer fyrir frumlegum samstörfum áhrifavalda og tískuhúsanna á samfélagsmiðlum, sem Elísabet segist oft fá innblástur frá: „Ég fylgist líka alltaf með því hvernig áhrifavaldar úti í heimi fá sniðugar hugmyndir í sínum samstörfum og oft finnst mér þær hugmyndir passa við íslenska markaðinn. Þá reyni ég að móta hugmyndina að okkar íslenska markaði og nýta í minni vinnu.“

Melodie Jeng/ WWD

Samfélagmiðlar nýji búðarglugginn

„Það er greinilegt að samfélagsmiðlar eru farnir að spila stærstan þátt í markaðssetningu og herferðum tískumerkja“ segir Elísabet. Þeir séu að hennar sögn bæði orðnir mikilvægasti „búðarglugginn” og „tískutímaritið” - enda hvoru tveggja á undanhaldi og þörf á nýjum leiðum til að kynna nýjustu tískuna.

Allt snúist þó um frammistöðuna á internetinu, hversu margir horfa á efni tengt sýningunum og þá ekki síst myndefni sem tekið er fyrir utan sýningangarnar; götutískan góða. Gott dæmi um slíkt er danska tískuvikan en trendið Scandi-style hefur orðið gríðarlega vinsælt á samfélagsmiðlum um allan heim. Því er danska tískuvikan orðin sérstaklega áberandi á miðlunum, þrátt fyrir að vera ein sú minnsta amk ef borin er saman við þær tískuvikur sem um árabil hafa ráðið ríkjum eins og París og New York.

„Tískusýningar eru enn stórir viðburðir, en mikilvægasti þátturinn er samt hvort sýningarnar slái í gegn og fari „viral“ á samfélagsmiðlum.“

Mynd: TikTok/Marc Jacobs

Hætta á rembing

Það er áhugavert að fylgjast með því hversu mörg hátískuhús hafa slakað á kröfunum á samfélagsmiðlum segir Elísabet. „Þau eru sum virkilega að reyna að elta allskonar trend og sníða sinn stakk á mismunandi miðlum.“ Hún nefnir sem dæmi tískumerkið Marc Jacobs, sem hefur verið virkt á TikTok undanfarið með öðruvísi aðferðum, þar er mikill húmor og hrátt efni.

„Það er spurning hvernig áhrif það hefur á svona virt og vandað vörumerki“ segir Elísabet. Þar megi sjá allt annan tónn en á öðrum miðlum og er TikTok efnið ekki í takt við það sem merkið er þekkt fyrir.

„Á TikTok virðast þau vera að keppast við að vera current en það er spurning hvort það sé of mikill rembingur - stundum finnst mér það verða þannig.“


Að vörumerki séu trú sínum gildum er eitthvað sem Elísabet vill meina að sé vænlegast til vinnings þegar kemur að markaðssetningu tískumerkja: „Mér finnst sjálfri mest heillandi þegar vörumerkin eru skapandi og hugrökk í sinni markaðssetningu, en halda þó á sama tíma í sín grunngildi og það sem vörumerkið stendur fyrir, og hefur gert kannski í marga áratugi. Það er galdurinn að mínu mati.“

Hlaðvarpið „Morgunbollinn með Elísabet Gunnars“ má finna hér

SKOÐA

FLEIRI GREINAR

Glæný og litrík Þjóðhátíð
herferð
October 1, 2024

Glæný og litrík Þjóðhátíð

TEXTI
ENNEMM
Er AI töfratólið sem markaðsfólk hefur beðið eftir?
pistill
October 1, 2024

Er AI töfratólið sem markaðsfólk hefur beðið eftir?

TEXTI
Þóranna K. Jónsdóttir
Vandamálin eru til að leysa þau — Vandamálaráðuneyti
frétt
October 1, 2024

Vandamálin eru til að leysa þau — Vandamálaráðuneyti

TEXTI
Cirkus